Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 23:12:15 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma í seinna skiptið til að ítreka að þessar 42 mínútur sem ég minntist á áðan að hæstv. forsætisráðherra hefði tekið til máls í þessari umræðu um Icesave eru öll Icesave-umræðan samtals á þinginu, sumarþingið meðtalið, og hún hefur ekki enn séð sér fært að taka til máls í þessari umræðu, hvorki núna við 2. umr. né við 1. umr. sem var í síðasta mánuði.

Það vekur líka athygli mína að aðeins helmingur ráðherranna hefur tekið til máls í þessari umræðu frá upphafi sem þýðir að helmingur ráðherra ríkisstjórnarinnar hefur ekki sagt þingheimi og þjóðinni hvað honum finnst um þetta mikilvæga mál. Ég fer fram á það, virðulegi forseti, að við hættum þessari umræðu, setjum hana á dagskrá aftur í næstu viku og tryggjum þá að hér verði fullur salur þannig að við getum treyst því að við getum átt skoðanaskipti um þetta mikilvæga mál. Ég tek undir með hv. þm. (Forseti hringir.) Þorgerði K. Gunnarsdóttur, ég er sérstaklega (Forseti hringir.) áhugasöm um að heyra hvað hv. þm. (Forseti hringir.) Ögmundur Jónasson hefur að segja í þessari umræðu.