Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 15:46:53 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir þau svör sem hann kom með við spurningum mínum. Mig langar kannski að velta því aðeins áfram upp að í raun og veru, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, frá því að málið kom hér fyrst upp hafa komið fram grundvallaratriði við dýpri skoðun á því. Þrátt fyrir að ég ætli ekki að gera lítið úr því að fjárlaganefnd og aðrar nefndir sumarþingsins og aftur í haust hafi kafað djúpt ofan í málið, virðist það vera það flókið og af þeirri stærðargráðu að það þurfi hreinlega meiri tíma til skoðunar.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það liggi mjög mikið á að afgreiða málið út. Í sumar var sagt að það væri stöðugt einhver pressa, það átti að ljúka því fyrir júlí, það átti að ljúka því fyrir lok sumarþings, það átti að ljúka því fyrir lok 23. október, telur hv. þingmaður að það sé (Forseti hringir.) mjög mikil þörf á því að ljúka þessu máli í næstu viku?