Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 16:05:33 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér eitt stærsta mál sem hefur rekið inn í sali Alþingis í sögu lýðveldisins, í ljósi þess að grundvallaratriðum málsins hefur verið breytt frá því að Alþingi samþykkti fyrir hönd ríkissjóðs löggjöf um heimild til handa fjármálaráðherra til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Þann 2. september samþykkti Alþingi lög eftir gríðarlega mikla yfirlegu allt sumarið sem þingmenn allra flokka komu að. Þegar við horfum nú á að lagafrumvarpinu sem Alþingi Íslendinga samþykkti sem lög frá Alþingi hefur verið breytt í grundvallaratriðum, þá eru einungis tveir stjórnarliðar á mælendaskrá hér á Alþingi Íslendinga í dag. Fimmtán stjórnarandstæðingar ætla að tjá sig og koma fram með efnislega gagnrýni á þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað frá því að Alþingi Íslendinga samþykkti frumvarp um hið svokallaða Icesave-mál þann 2. september. (Gripið fram í.)

Vel getur verið að margir séu orðnir þreyttir á þessu máli en eftir því sem maður skoðar það betur og eftir því sem maður fær viðbrögð frá fleiri aðilum úti í samfélaginu þeim mun áhyggjufyllri verður maður gagnvart komandi kynslóðum hér á landi og gagnvart íslensku samfélagi að sá skuldabaggi sem verið er að leggja á þjóðina verði of þungur. Það er skylda okkar sem sitjum á Alþingi Íslendinga að hugsa með þeim hætti, til þess vorum við kjörin.

Frú forseti. Áður en ég kem að upphafi málsins þá hafa síðustu dagar hér á Alþingi verið með hreinum ólíkindum. Ég heyri að hv. stjórnarliðum liggur dálítið hátt rómur hér í hliðarherbergi þingsins þar sem þeir ræða trúlega um allt önnur mál en ég, þannig að ég fer fram á það við hæstv. forseta að loka hliðarherberginu svo ég hafi frið til að ræða þetta mikilvæga mál. Stjórnarliðar hafa greinilega allt annað við tíma sinn að gera en að ræða þetta mál, eins og sést á mælendaskránni.

Frú forseti. Það er ekki langt síðan 1.500 Íslendingar komu saman í Laugardalshöll á svokölluðum þjóðfundi. Þar kom saman fólk hvaðanæva að af landinu, fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og stéttum. Mikil gleði og eindrægni ríkti í þeim hópi að afloknum fundinum, eindrægni sem ég hefði kosið að ríkti í þessum sal. Og hvað kom út úr þeirri miklu umræðu sem þar fór fram? Þar kom fram ákveðin krafa um að hugtök eins og sanngirni, heiðarleiki og réttlæti yrðu einkennandi fyrir hið nýja samfélag sem mun rísa úr rústum efnahagshrunsins sem blasir við okkur.

Í vikunni á eftir lagði ríkisstjórnin fram nýtt Icesave-frumvarp í þinginu og hvernig hafa vinnubrögðin verið eftir þetta ákall þjóðarinnar um ný og breytt vinnubrögð? Hvernig hafa vinnubrögðin verið í þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar sem við fjöllum hér um? Jú, þegar við í minni hluta efnahags- og skattanefndar óskuðum eftir því að fá fólk til fundar við nefndina var okkur neitað um að kalla til sérfræðinga til að ræða þetta nýja frumvarp. Þó var okkur falið ansi viðamikið hlutverk af fjárlaganefnd til að fara yfir hagræna þætti sem snerta þetta stóra mál. Við fengum því miður ekki að kalla til gesti.

Það sem verra var, við fengum lítinn tíma til að útbúa álit, sem reyndar urðu fjögur í efnahags- og skattanefnd, eitt frá Samfylkingunni, annað frá Vinstri grænum og tvö minnihlutaálit frá minnihlutaflokkunum. Álitin voru send til fjárlaganefndar að lokinni mikilli vinnu og hver var afgreiðslan á þessum stóru álitum þar? Þau fengust ekki rædd, þetta var bara gert að forminu til, kallað eftir álitum sem síðan voru ekki rædd á fundi nefndarinnar. Er þetta eitthvað sem við getum látið viðgangast í störfum Alþingis? Sérstaklega í ljósi þeirra hluta sem orðið hafa í íslensku samfélagi á undangengnum vikum.

Hvar eru nú þessir svokölluðu lýðræðisflokkar sem hafa talað um samráð, samráð við þingmenn, samráð við þjóðina? Okkur fulltrúum minni hlutans hér á þingi er neitað um að fá aðila á fund nefndarinnar eins og t.d. Indefence og lögfræðinga, bara vegna þess að við erum í minni hluta.

Staðreyndin er sú, frú forseti, að 96.000 Íslendingar kusu Samfylkinguna og Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í síðustu alþingiskosningum en tæplega 91.000 kusu aðra stjórnmálaflokka en þessa tvo. Það sem við upplifum hér aftur og aftur á Alþingi Íslendinga er að við fulltrúar þessara 90.000 Íslendinga erum virtir að vettugi. Í öllum störfum, í allri ákvarðanatöku er það þannig að 34 þingmenn af 63 ætla að ráða öllu. Allar þær tillögur og hugmyndir sem við höfum komið með hafa verið blásnar út af borðinu nema sú merkilega undantekning sem átti sér stað á sumarþingi að ríkisstjórnin varð að taka tillit til sjónarmiða fulltrúa þessara tugþúsunda Íslendinga, sem eru litlu færri en þeir sem studdu ríkisstjórnarflokkana í síðustu kosningum, vegna þess að Vinstri hreyfingin – grænt framboð klofnaði í Icesave-málinu, eins og frægt er orðið.

Þar með var meirihlutavald hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að engu orðið og þar með var ekki meiri hluti fyrir tilskipunum af þeirra hálfu í stjórnarmeirihlutanum, sem var minni hluti í sumar. Þetta vakti mér í raun og veru ákveðnar vonir um það að nýir tímar væru komnir í starfsemi Alþingis Íslendinga. Ég ætla að fara í örfáum orðum yfir upphaf þessa máls, sem margir þekkja.

Í febrúarmánuði skipaði hæstv. fjármálaráðherra nefnd fyrir hönd þáverandi minnihlutastjórnar — sem naut stuðnings Framsóknarflokksins að því leyti til að kæmi fram vantrauststillaga á vettvangi þingsins hét Framsóknarflokkurinn því að því að verja stjórnina falli að undangengnum ákveðnum skilyrðum sem tilgreind voru þá. Í þeirri nefnd voru eingöngu embættismenn og persónulegir stuðningsmenn og samflokksmenn hæstv. fjármálaráðherra í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og var hún send utan til að semja fyrir hönd þjóðarinnar í þessu stærsta máli sem við höfum staðið frammi fyrir. Þegar maður ræddi þessa skipan við fólk hér og þar í samfélaginu furðuðu margir sig á því af hverju stjórnarandstaðan hefði ekki tilnefnt fulltrúa í þessa viðræðunefnd í ljósi þess hversu umfangsmikið málið var. Þetta vakti mikla furðu og voru að margra mati mikil mistök á þeim tíma.

Sú niðurstaða sem kom út úr utanför þessarar viðræðunefndar var að áliti okkar framsóknarmanna og margra í stjórnarandstöðunni gjörsamlega óásættanleg. Steingrímur J. Sigfússon hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir í marsmánuði á þessu ári að glæsileg niðurstaða Icesave-viðræðna væri nú í augsýn. Ég ætla að vitna í orð hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Það er í sjónmáli að hann landi og hans fólk, glæsilegri niðurstöðu fyrir okkur og vonandi mun betri en lengi leit út fyrir að gæti orðið,“ sagði Steingrímur.“

Þar er hæstv. ráðherra að tala um frammistöðu formanns viðræðunefndarinnar, Svavars Gestssonar. Þegar niðurstaðan var fengin, stóð ekki til af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að sýna okkur hana. Við kröfðum hæstv. ráðherra um það að fá að sjá það samkomulag sem viðræðunefndin gerði fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Það var legið á því. Það var ekki fyrr en samningurinn lak til ríkissjónvarpsins að forustumenn ríkisstjórnarinnar vöknuðu og sögðu að sjálfsagt væri að birta hann alþjóð, en þá hafði ríkissjónvarpið reyndar gert það kvöldið áður. Þar kemur nú að enn einni niðurlægingu Alþingis Íslendinga í því máli að við, sem erum fulltrúar þjóðarinnar og eigum að vinna að mikilvægum málum sem þessum fyrir hönd hennar, fengum fyrst að sjá þetta samkomulag í sjónvarpsfréttum eftir að einhver hafði lekið þessum mikilvægu upplýsingum, þrátt fyrir að hafa rekið á eftir því í þingnefndum að fá að sjá það.

Þetta sýnir í raun og veru, frú forseti, viðhorf framkvæmdarvaldsins, þessara ráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, til minni hlutans hér í þinginu. Ég hefði haldið að eftir innblásnar ræður þeirra er þau voru í stjórnarandstöðu mundi nú hugur fylgja máli og menn reyna að temja sér ný vinnubrögð en það hefur því miður ekki gengið eftir, frú forseti.

Það var ansi merkilegt að fljótlega eftir að viðræðunefndin hafði skrifað undir þetta samkomulag, lýstu margir stjórnarþingmenn því yfir, innan þings sem utan, að þeim litist vel á það og mundu styðja ríkisstjórnina í því að koma samkomulaginu í gegnum Alþingi Íslendinga, án þess að hafa séð það. Hvers lags virðingarleysi er þetta af hálfu hv. þingmanna gagnvart fólkinu sem kaus þá á þing? Algjör dómgreindarskortur og virðingarleysi gagnvart þeim almenningi sem þeir eru kosnir til að sinna trúnaðarstörfum fyrir. Það er einfaldlega ekki viðunandi og verður aldrei sátt um það í íslensku samfélagi að alþingismenn hagi störfum sínum með þessum hætti.

Við framsóknarmenn vorum gagnrýndir mjög mikið á sumarmánuðum fyrir mjög harða stjórnarandstöðu hér í þinginu. Margir töluðu um að þingflokkur Framsóknarflokksins gerði í raun og veru meira ógagn heldur en gagn og jafnvel var oft talað um að málflutningurinn væri ómálefnalegur. Sumir fjölmiðlar tóku reyndar undir þetta. En hver var svo veruleikinn? Jú, mörgum þingmönnum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til hróss þá sáu þeir að sér, hlustuðu á viðvörunarorð færustu sérfræðinga okkar, hvort sem það var á sviði efnahagsmála eða lögspeki og fóru að hugsa. Menn fóru líka að hlusta, enda mótmælti fólk hér á Austurvelli og vítt og breitt um landið þeim gjörningi sem til stóð að leiða í lög hér á Alþingi og nokkrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fóru að hlusta.

Við unnum þverpólitískt á vettvangi þingsins við að setja fram viðamikla fyrirvara til að minnka þá áhættu sem samningarnir eru íslenskri þjóð. Helstu fyrirvararnir sem við samþykktum hér 2. september voru í fyrsta lagi það að ríkisábyrgðin átti að falla niður þann 5. júní árið 2024. Ábyrgð okkar takmarkaðist við það. Ef við hefðum ekki haft tök á því að greiða þessa skuld að fullu árið 2024 féllu eftirstöðvarnar niður. Í öðru lagi var sett þak á heildargreiðslur þannig að þær færu ekki upp fyrir 6% af uppsöfnuðum hagvexti frá 2008 til greiðsluársins. Í þriðja lagi var lagt til að við uppgjör Landsbankans færi úthlutun eigna hans fram eftir íslenskum lögum til að láta reyna á hvort kröfur tryggingarsjóðsins íslenska gengju framar kröfum Breta og Hollendinga vegna sömu innstæðu við úthlutun. Þessi fyrirvari var alloft nefndur Ragnars Halls fyrirvarinn. Í fjórða lagi ef til þess bær aðili kæmist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkinu bæri ekki skylda til að veita ríkisábyrgð, skyldu fara fram viðræður á milli Íslands og viðsemjenda um áhrif niðurstöðunnar á lánasamningana og skuldbindingar ríkissjóðs.

Þetta er það sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi Íslendinga gátu sameinast um þann 2. september. Þó að við framsóknarmenn hefðum viljað ganga lengra í þessum efnum, voru þessir fyrirvarar vissulega til bóta.

En hvað hefur nú gerst? Við samþykktum lög með þessum fyrirvörum. Alþingi Íslendinga setur lögin í landinu. Hæstv. fjármálaráðherra sendi á ný viðræðunefnd til að ræða við fulltrúa Breta og Hollendinga um viðbrögð þeirra við þessu þverpólitíska samkomulagi hér á þinginu. Hver var niðurstaðan? Hverjir fóru fyrir hönd þjóðarinnar til að tala málstað hennar erlendis? Voru í þeim hópi fulltrúar stjórnarandstöðunnar hér á þingi? (ÓN: Enginn.) Enginn. Höfðu menn ekkert lært. Fulltrúar þeirra flokka sem hafa 90.000 íslenska kjósendur á bak við sig fengu ekki aðkomu að málinu. Ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir eru einangruð í þessu máli, einangruð hér í þinginu, jú, þessir tveir flokkar ætla núna eftir að stór hluti af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefur greinilega verið barinn niður til fylgilags við þennan slæma málstað, en þjóðin fylgir ekki þessum flokkum. Gríðarleg andstaða er við þetta samkomulag meðal þjóðarinnar. Hefði ekki verið betra fyrir ríkisstjórnarflokkana að fá fulltrúa frá stjórnarandstöðunni í þessa viðræðunefnd, þannig að við Íslendingar færum sem ein heild til þessara viðræðna og reyndum að sameinast í niðurstöðunni um þetta? Nei, þess í stað skulu þessir tveir flokkar einir fara með allt ákvörðunarvald í þessum málum.

Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum komum við í stjórnarandstöðunni því miður að orðnum hlut. Þetta eru vinnubrögð sem við viljum afleggja á Alþingi Íslendinga. Við viljum fá að koma fyrr að ákvarðanatöku, ekki síst í jafnstóru og -viðamiklu máli sem Icesave-málið er. Þess vegna er staðreyndin sú að hér verða langar umræður, harðar umræður. Hvers vegna? Vegna þess að okkur í minni hlutanum hér á þinginu er neitað um að fá gesti á fund efnahags- og skattanefndar, á fund fjárlaganefndar. Eru háttvirtir stjórnarliðar hræddir um að einhverjar óþægilegar upplýsingar komi fram? Við gætum verið með þetta mál inni í efnahags- og skattanefnd og í fjárlaganefnd, þar sem gestir kæmu til fundar við nefndarmenn að morgni dags eða jafnvel að kvöldi til og jafnframt gætum við fundað hér á daginn um þau mikilvægu mál sem við þurfum að glíma við, fjárlög, skattamál og fjáraukalög. Gríðarlega stór verkefni blasa við þingheimi. Við báðum stjórnarliða í fullri einlægni um að virða þá ósk okkar að fá að kalla til sérfræðinga í ljósi þess að þessir samningar eru gjörbreyttir miðað við hvernig þeir litu út þann 2. september er við samþykktum lög um þá hér á Alþingi. Því var neitað. Þess vegna er karpað hér og það er meiri hlutinn sem ræður vinnubrögðum á Alþingi. Ef óskum okkar um gesti á fundi nefndarinnar hefði verið hlýtt, hefði örugglega mátt flýta fyrir þeirri umræðu sem hér á sér stað. (GuðbH: Hvern bað Framsókn um í fjárlaganefnd?)

Nú er það svo að við fengum þau skilaboð í efnahags- og skattanefnd að fjárlaganefnd hefði tekið ákvörðun um að taka málið út umræddan mánudag. Við fengum að vita á fundi nefndarinnar að við yrðum að gjöra svo vel að skila nefndarálitum á sunnudagskvöldi, mánudagsmorgni. (GuðbH: Sem átti að skila á föstudegi.) Sem átti að skila á föstudegi, segir hv. formaður fjárlaganefndar. Umfang málsins er slíkt að við afgreiðum ekkert svona mál í einhverjum andarteppustíl. Þetta mál og íslenskur almenningur eiga meira skilið en vinnubrögð af því tagi.

Mig langar að ræða aðeins um vinnubrögðin hér og halda áfram gagnrýni minni á það hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa hagað störfum sínum í þessu máli, með því að kalla ekki fleiri aðila í samninganefndina. Það eru nú engar smáræðis gagnrýnisraddir sem koma innan úr Samfylkingunni gagnvart núverandi forustu hennar. Ég vil vitna til ummæla Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem hún viðhafði þann 13. þessa mánaðar, með leyfi forseta:

„Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, gagnrýnir Icesave-samninganefnd Íslands og segir að hún hafi ekki lagt nógu mikla áherslu á ábyrgð Breta og ábyrgð Evrópusambandsins í málinu. Hún segir að Íslendingar hafi gengið til samningaviðræðna eins og sakamaðurinn, en hins vegar séu bresk stjórnvöld laus allra mála.“

Hér er vitnað til óumdeilds forustumanns Samfylkingarinnar, sem nýlega hefur látið af störfum sem formaður þess flokks, sem gagnrýnir harðlega hversu mikla linkind samninganefndin viðhafði í viðræðum sínum við erlenda aðila, þá nefni ég sérstaklega Breta og Hollendinga.

Mig langar líka að nefna og vitna í mikinn samfylkingarmann, Eirík Bergmann, forstöðumann Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Með leyfi forseta segir hann þann 23. nóvember, sem var nú bara í gær, með leyfi forseta:

„Hann — þ.e. Eiríkur Bergmann — bendir á að eðli EES-samstarfsins sé þannig að Íslendingar hefðu átt að fá sambærileg lánskjör á Icesave skuldbindingunum og þau sem Bretar og Hollendingar fjármagni sig á.“

Það hefur nú komið nýtt fram hér í þessari umræðu að Daniel Gros, fulltrúi Framsóknarflokksins í bankaráði Seðlabanka Íslands, hefur bent á það að mismunurinn á þeim vöxtum sem innlánssjóðir Breta og Hollendinga þurfa að greiða, séu 4,05 prósentustig, þ.e. Bretar og Hollendingar lána sínum innlánstryggingarsjóðum fjármagn á 1,50% vöxtum, á meðan við Íslendingar skulum gjöra svo vel að greiða 5,55% vexti. Hér munar 185 milljörðum kr. þegar kemur að vöxtum. (Gripið fram í.) Eigum við að setja þetta í samhengi?

Á fundi efnahags- og skattanefndar í gærmorgun var rætt um það að fyrirhugaðar skattahækkanir á fyrirtækin og heimilin í landinu á næsta ári, sem eru gríðarlega umdeildar og margir efast um að heimilin og fyrirtækin beri, eru 43 milljarðar. Þetta eru skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á atvinnulífið og heimilin í rúm fjögur ár. Síðan biðjum við hér frú forseta um að gera hlé á þessari umræðu til að fara ofan í þennan efnisþátt málsins og okkur er neitað um það. Af hverju? Við erum í minni hluta hér á Alþingi. Hér er fólkið sem ræður. Hverju getur íslenskur almenningur tapað á því að slegið sé á einum léttum fundi í fjárlaganefnd til að fara yfir þessi mál? Hér er um þvílíka vanrækslu að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar og ég held að sagan eigi eftir að dæma stjórnmálamenn sem eru að störfum hér á Alþingi með ansi misjöfnum hætti. Ég hugsa að komandi kynslóð muni klóra sér í höfðinu yfir því hvers vegna þetta atriði var ekki skoðað. Af hverju mátti ekki kalla Daniel Gros fyrir fjárlaganefnd þingsins til að fara yfir þessi mál? Hvaða valdhroki var hér við lýði á árinu 2009 þegar nýbúið var að halda þjóðfund þar sem 1.500 Íslendingar komu saman og töluðu m.a. um samstöðu, samvinnu og heiðarleika? Þessi ríkisstjórn hlustar ekki, frú forseti og það er grafalvarlegt mál.

Mig langar aðeins að ræða áfram það ofbeldi sem viðgekkst í efnahags- og skattanefnd. Okkur varð ljóst að Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir því að meðaltalsafgangur af viðskiptum við útlönd á hverju ári á næstu 10 árum verði hvorki meiri né minni en 163 milljarðar. Við þurfum slíkan afgang til að standa undir öllum þessum erlendu skuldbindingum. Hver er vöruskiptajöfnuðurinn á þessu ári, sem er eitt það allra hagstæðasta? Gengi krónunnar í sögulegu lágmarki og skilyrði útflutningsatvinnuveganna með þeim bestu sem hér gerast, því menn spá nú að krónan muni styrkjast. Vöruskiptajöfnuðurinn er einhverjir 40 til 50 milljarðar. Þegar við báðum Seðlabankann um að fá fleiri sviðsmyndir, hvað það mundi þýða ef meðaltalshagvöxtur næsta áratuginn væri 1,5% í stað þeirra 2,4% sem Seðlabankinn áætlar, gætum við þá staðið undir þessu? Gætum við fengið slíka sviðsmynd? Nei. Gætum við fengið sviðsmynd þar sem menn tónuðu eitthvað niður þessa ofurbjartsýnu spá um vöruskiptaafgang við útlönd? Nei. Málið var útrætt af hálfu meiri hlutans, það skyldi út og það skyldi fara í umræðu í þinginu.

Svo voga stjórnarliðar sér að koma upp og saka okkur um eitthvert málþóf. Hægt væri að vinna þetta mál með miklu markvissari hætti en gert hefur verið. Þegar menn koma í veg fyrir það að við náum fram nauðsynlegum upplýsingum um þessi stóru mál, þá er eðlilegt að minni hlutanum hér á Alþingi Íslendinga hlaupi dálítið kapp í kinn. Hvar eru nú þeir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa talað fyrir því og töluðu fyrir því í allt sumar að um þetta mál ætti að vera opin og upplýst umræða? Erum við með opna og upplýsta umræðu? Við erum að kalla eftir svörum frá helstu sérfræðingum okkar sem við viljum fá inn í nefndir þingsins til þess að við getum útbúið almennileg nefndarálit og haft þessa umræðu eins og hjá fólki. Sjáðu hvernig þetta er, frú forseti. Nær engir stjórnarliðar eru í þessari umræðu. Við sitjum hér tíu stjórnarandstæðingar, enginn stjórnarliði. Þetta er sorglegt og í raun og veru ekkert annað en sandkassaleikur. Síðan reyna forustumenn ríkisstjórnarinnar að varpa því á stjórnarandstöðuna að hún sé með óábyrgt tal í ræðustól Alþingis. Hver er óábyrgur hér þegar einungis tveir stjórnarliðar eru á mælendaskrá í dag í þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar? Það eru fimmtán stjórnarliðar á mælendaskrá. Hver sýnir ábyrgð og hver ekki? (Gripið fram í: Stjórnarandstæðingar?) Fimmtán stjórnarandstæðingar, ég biðst afsökunar á mismælunum, það er nú eðlilegt í 40 mínútna langri ræðu að maður fipist eitthvað. En þetta er svo.

Frú forseti. Það er fleira sem ég vil vekja athygli á hér. Athyglisvert væri að fá viðbrögð við því að heldur betur er búið að breyta þeim fyrirvörum og snúa á hvolf sem við gerðum hér er við samþykktum lögin þann 2. september og lutu m.a. að sjálfstæði landsins og dómstóla. Í ljósi þess að þingmenn sverja eið að íslensku stjórnarskránni og eiga að starfa samkvæmt henni, velti ég því fyrir mér hvort alþingismenn séu ekki að vinna vinnuna sína ef þeir vilja ekki kanna betur þær alvarlegu athugasemdir sem hafa komið fram um að alþingismenn gætu mögulega verið að brjóta stjórnarskrána með því að samþykkja þetta frumvarp.

Ég vil vitna hér í grein sem Sigurður Líndal prófessor ritaði í Fréttablaðið þann 19. nóvember árið 2009, sem sagt fyrir örfáum dögum, eftir að málið var tekið með ofbeldi út úr efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd. Þar segir, með leyfi forseta:

„Merkilegt má heita að í þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið virðist ekkert hafa verið fjallað um hversu langt heimildir löggjafans ná til að skuldbinda íslenska ríkið (og þá um leið þjóðina) með þessum hætti - hvort ekki sé óhjákvæmilegt að setja slíkum skuldbindingum, sem allt bendir til að verði mjög þungbærar, einhver takmörk eins og leitast var við að gera í lögum nr. 96/2009. — Og þá hlýtur stjórnarskráin að koma til skoðunar.“

Og áfram segir Sigurður, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi því sem nú bíður afgreiðslu liggur vissulega fyrir lagaheimild, en verður ekki að gera þá kröfu að hún sé þannig úr garði gerð að skuldbindingum séu sett skýr takmörk og stofni þannig fullveldi ríkisins ekki í hættu? Og hér er álitaefnið hvort frumvarpið fullnægi þessum áskilnaði. Um það skal ekkert fullyrt, en hins vegar kemur á óvart að þessi þáttur virðist ekki hafa komið til almennrar umræðu. Væri nú ekki rétt að huga að þessu áður en frumvarpið verður samþykkt?“

Þetta ritar lagaprófessorinn Sigurður Líndal eftir að málið var tekið með miklu offorsi út úr nefnd og við stjórnarandstæðingar höfum hér í dag kallað eftir því að nefndir þingsins komi saman og fari yfir álitamál sem þetta og fleira sem ég nefndi í fyrri ræðu minni. Algjört ofbeldi er af hálfu meiri hlutans í þessu máli. Við þurfum að sitja undir því, en við munum ekki sitja þegjandi og hljóðalaust undir þessum starfsaðferðum, sem fara þvert gegn því sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hétu íslensku þjóðinni í aðdraganda síðustu kosninga.

Annað sem fram hefur komið að hefur verið töluvert veikt eru hin svokölluðu Brussel-viðmið, sem hafa verið algjörlega útþynnt, en með þeim átti að taka sérstakt tillit til erfiðrar og einstakrar stöðu íslensku þjóðarinnar í kjölfar efnahagshrunsins. Indefence-hópurinn hefur gagnrýnt þetta allharkalega og vissulega eru efni til þess. Þess vegna var sárt fyrir mig, sem á að gegna skyldum mínum hér á vettvangi Alþingis Íslendinga, að fá nei sem svar við því þegar ég óskaði eftir því á fundi efnahags- og skattanefndar að menn mundu nú gera svo lítið að kalla Indefence-hópinn fyrir nefndina áður en við skiluðum álitum okkar, til þess að fjalla um álitaefni sem þessi. Maður veltir því fyrir sér, frú forseti, hvort hér sé um lýðræðisleg vinnubrögð að ræða. Hvort fulltrúar minni hlutans, sem eru 29 hér á Alþingi, þurfi í fullri alvöru gjörsamlega að lúta í gras gagnvart 34 þingmönnum stjórnarmeirihlutans. Ef við værum nú í minni hluta meðal þjóðarinnar í þessu máli, en almenn samstaða er hjá landsmönnum um að þetta mál megi ekki afgreiða með þessum hætti. Engin tilraun er gerð til þess af hálfu stjórnarliða, ríkisstjórnarinnar, að koma til móts við sjónarmið samfélagsins eða okkar í stjórnarandstöðunni.

Af því að við erum nú hér með reglubundnum hætti að rífast í hæstv. fjármálaráðherra, sem sýnir okkur þá virðingu að vera viðstaddur þessa umræðu, hann er reyndar í hliðarherbergi og ég veit af því, og við rífumst líka í hæstv. forsætisráðherra, sem á víst líka að vera í húsinu, að þá skulu hv. stjórnarþingmenn fara að gera sér grein fyrir því að þeir bera jafnmikla ábyrgð og þessir hæstv. ráðherrar. Hvað varð um allt lýðræðishjalið hjá þessu nýja fólki í Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem kom hér inn á Alþingi á árinu 2009? Þessir þingmenn taka við tilskipunum frá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, gerðu það á vormánuðum og sumir lýstu því yfir að þeir mundu styðja Icesave-frumvarpið eins og það leit út þá án þess að hafa séð það. (Gripið fram í.)

Svo er það rosalega mikill rökstuðningur hjá hv. þingmanni Magnúsi Orra Schram að honum finnist það mikil meðmæli að hæstv. fjármálaráðherra hafi skipt um skoðun á málinu, það hafi bætt málið svo svakalega. Þetta er efnisleg umræða sem við erum í. Ég velti því oft fyrir mér hvað þjóðin hugsi þegar hún horfir á þessar umræður hér? Hér kemur hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum, við köllum eftir stjórnarliðum, köllum eftir málefnalegri umræðu, svo koma hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra í fyrstu frétt í fjölmiðlum og segja að hér sé ómálefnaleg stjórnarandstaða.

Ég er nú eiginlega, frú forseti, að verða undrandi á því hvað óbreyttir þingmenn eru ofboðslega linir gagnvart þessum hæstv. ráðherrum. Mér er alveg orðið fyrirmunað að skilja hvort þetta fólk hefur sjálfstæðan vilja? Þetta er orðið svo alvarlegt mál og mikið hjartans mál hjá okkur mörgum, ég veit að margir úti í samfélaginu eru orðnir þreyttir á þessu máli en sagan mun dæma þá sem stóðu vörð í því hér á vettvangi þingsins. Sagan mun líka dæma þá hæstv. ráðherra og hv. þingmenn sem samþykkja — sem vonandi verður nú ekki — það frumvarp sem við ræðum hér.

Ég veit að við getum breytt þessu. Ég bið háttvirta stjórnarþingmenn um að líta í eigin barm … (REÁ: Þeir þora því ekki.) Nú heyri ég froðusnakk Samfylkingarinnar hér í hliðarsal um að ekki eitt einasta nýtt atriði hafi komið fram í þessari umræðu, það er bara rangt. Ég hvet nú hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans til að sitja hér í salnum, vegna þess að nýir hlutir hafa komið fram eftir að málið var tekið út úr nefnd. Menn hrista bara hausinn hér í hliðarsölum en þeir koma ekki í umræðuna, þeir koma ekki og skiptast á skoðunum við okkur, það gera þeir ekki.

Frú forseti. Hér er um dapurlegt mál að ræða og í raun og veru er ég dapur í bragði þegar ég lýk þessari ræðu minni, vegna þess að ég finn og skynja að lítið er á okkur hlustað þó að við komum með ný efnisatriði í umræðuna. Og í raun og veru eru dálítið hættuleg merki farin að gera vart við sig á stjórnarheimilinu og þeir sem andæfa ríkisstjórninni fá nú bara að heyra það. (BÁ: Reknir úr ríkisstjórninni.) Jafnvel reknir úr ríkisstjórn. Það er óvissa um það hvort Mats Josefsson, sem átti að ráðleggja ríkisstjórninni við endurskipulagningu bankakerfisins, starfi nema til áramóta, en það er kannski vegna þess að þessi ágæti ráðgjafi gagnrýndi ríkisstjórnina harkalega fyrir seinagang við uppbyggingu fjármálastarfsins. (ÓN: Bannað að gagnrýna ríkisstjórnina.)

Svo kom Moody's fyrr á þessu ári með gagnrýni á stefnu stjórnvalda og hvernig menn stæðu sig. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon afgreiddi það nú mjög fljótt; hann sagðist bara vera ósammála Moody's rétt eins og hæstv. forsætisráðherra sagðist vera ósammála efnahagsráðgjafa sínum í … (REÁ: Og Dominique Strauss-Kahn.) Og Dominique Strauss-Kahn. Þannig að einhver þreyta er á stjórnarheimilinu, því miður, það er áhyggjuefni fyrir okkur öll.

Ég vona að frú forseti skjóti nú á fundi í ljósi þeirra upplýsinga sem við höfum komið fram með, nýrra upplýsinga er snerta vextina á þessum samningum og þann mismun sem er á milli þeirra vaxta sem við Íslendingar þurfum að bera af þessum skuldbindingum og innlánssjóðir Breta og Hollendinga, þar munar 4,05 prósentustigum eða 185 milljörðum kr. sem eru skattahækkanir ríkisstjórnarinnar í rúm fjögur ár. Þetta eru engar smáræðisupphæðir. Og stjórnarliðar hér á vettvangi þingsins geta ekki séð sóma sinn í því að slá á fundi í fjárlaganefnd til að fara yfir þetta mikilvæga mál.

Efasemdir hafa líka komið fram hjá Sigurði Líndal lagaprófessor um það hvort alþingismenn gætu verið að brjóta stjórnarskrána. Því er nú bara tekið svona sem léttvægu hjali. Það má ekki koma á fundi í fjárlaganefnd til að fara yfir það mál. Nei, það skal kýla þetta mál í gegnum þingið. Forustan hefur kveðið upp sinn dóm. Verkstjórinn hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon hafa gefið út fyrirskipanir sínar og stjórnarliðar ætla að hlýða.

En eitt skulu þeir vita, það verður kosið aftur í þessu landi. Ég er ekki viss um að almenn hrifning verði á meðal fólksins sem kaus þessa hv. þingmenn inn á Alþingi Íslendinga um það hvernig þeir hafa starfað hér frá því að þing kom saman að afloknum kosningum. Þetta fólk mun taka sínum dómi og það munum við í stjórnarandstöðunni gera líka. Sagan mun dæma verk okkar og orð á vettvangi Alþingis og ég kvíði þeim dómi ekki, frú forseti.