Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 16:51:59 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta voru svo margar spurningar að maður þarf að svara þeim mjög hratt á tveimur mínútum en ég ætla að reyna að svara einhverjum þeirra.

Varðandi lögfræðilegu álitaefnin var ekki gerð nein skoðun á því, alls ekki. Þegar við töluðum fyrir því gagnvart Seðlabankanum að fá fleiri sviðsmyndir gagnvart ólíkum forsendum — það eru jú forsendurnar sem skipta máli í þessu þegar menn setja þetta dæmi upp, hvort það sé raunhæft eða ekki, við höfum ekki fengið þær. Það er mjög alvarlegt. Við fengum ekki fund með Indefence-hópnum sem hefur komið með margar mjög gagnrýniverðar ábendingar á þetta mál og svo er það nú ekkert nýtt í fræðunum að þær þjóðir sem eru ofurskuldsettar í erlendri mynt eiga það á hættu að lenda í skuldafangelsi sem getur leitt til þess að gjaldmiðill viðkomandi þjóðar verður viðvarandi veikur sem hefur á endanum skelfileg og mjög alvarleg áhrif, m.a. á lífsgæði í viðkomandi löndum.