Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 16:54:29 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:54]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér er í rauninni alveg fyrirmunað að skilja þessi vinnubrögð hjá stjórnarmeirihlutanum, því að við hefðum getað nýtt síðustu daga á sviði efnahags- og skattanefndar og fjárlaganefndar til að kalla til gesti til að gera umræðuna markvissari en ella og fá fram athugasemdir frá þessum aðilum og þar af leiðandi hefði umræðan nú ekki þurft að vera með þeim hætti sem raun ber vitni. Í raun og veru er dapurlegt að upplifa slík vinnubrögð hjá meiri hlutanum, ég vil ekki meina að það sé af slæmum vilja, ég tel að þetta fólk vilji þjóðinni vel eins og við öll hérna, en meiri hlutinn er á algjörlega rangri leið í þessu máli og ég held að það eigi eftir að koma á daginn þegar fram líða stundir að betra hefði verið fjalla betur um málið í nefndunum. Ég held, þó að við reynum að gera okkar besta til að sveigja stjórnarmeirihlutann af rangri leið, að þjóðin sé ekkert allt of sátt við þessi vinnubrögð á Alþingi Íslendinga.