Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 16:58:16 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar en þingmanninum láðist að svara því í ræðustólnum hvort hann teldi að þetta væri blekkingarleikur. Ég óska eftir að hann segi það hér þannig að við getum fengið það skrifað í Alþingistíðindin fyrir framtíðarkynslóðir.

Síðan mundi ég líka vilja spyrja þingmanninn. Í gögnum fjárlaganefndar — ég veit ekki hvað hefur verið rætt í efnahags- og skattanefnd, væntanlega ekki mikið meira — kemur í ljós að það er ein fundargerð um þessi samskipti og eftir því sem ég best veit hefur ekki verið lögð fram í fjárlaganefnd nema þessi eina fundargerð af samskiptum okkar og hún er þá frá fundi einhvern tímann í september í Haag. Finnst þingmanninum eðlilegt í svona mikilvægu máli þegar um er að ræða þessa gífurlegu hagsmuni fyrir íslenska þjóð, að svo virðist vera, a.m.k. miðað við gögnin sem fram eru lögð, að það hafi ekki verið haldnar fundargerðir af öllum þeim óteljandi fundum sem hafa átt sér stað, í lyftum í Istanbúl og á allsherjarþinginu? Finnst (Forseti hringir.) þingmanninum ekkert óeðlilegt við það að ekki skuli vera til skrifleg gögn af þessum fundum?