Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 17:03:02 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Núna þegar efnahags- og skattanefnd var að afgreiða álit sín út úr nefndinni í óþökk við minni hlutann eins og ég sagði áðan réttilega kom það til umræðu að efnahags- og skattanefnd mundi skoða sérstaklega þann þátt sem snýr að því að búið sé að festa kröfu innstæðutryggingarsjóðs við gengið 22. apríl sl. Bara til að árétta það er síðan það var gert komið 70–80 milljarða kr. gat í þann endann við gengisfall krónunnar sem gerir það að verkum að Landsbankinn eða þrotabúið getur greitt meira upp í skuldirnar, en gatið kemur í hinn endann. Hvað finnst hv. þingmanni? Hefði ekki verið eðlilegra fyrir efnahags- og skattanefnd að kafa sérstaklega ofan í þetta með hliðsjón af alvarleika þessa máls og stilla því þá upp með því hvað í raun og veru gæti verið í húfi?

Nú er búið að taka efnahagslegu fyrirvarana úr sambandi að því leyti til að nú skulu alltaf greiddir vextir og það kom fram hjá Lee Buchheit, sem er reyndur samningamaður, að hann ráðlagði mönnum að fara annaðhvort þá leið (Forseti hringir.) að setja mjög sterka efnahagslega fyrirvara eða semja ekki um hvernig staðið yrði að greiðslum fyrr en vitað væri hver heildarupphæðin yrði.