Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 17:12:09 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra skuli sjá sér fært að vera við umræðuna og væri kannski ekki úr vegi að þau færu í framhaldinu í andsvör við mig, enda mun ég hér benda á ýmislegt sem væri gott að fá frekari skýringar á frá hæstv. ráðherrum.

Ég ætla reyndar að fara yfir nokkur atriði varðandi þetta mál sem hvert um sig er það stórt að það mundi réttlæta heila ræðu, en ég reyni að vera stuttorður um hvert atriði til að koma þeim sem flestum að. Þetta mál er nefnilega þess eðlis að hér hefur komið upp hvert stóratriðið á eftir öðru og hvert og eitt svo stórt og mikið áhyggjuefni að það mundi réttlæta mikla vinnu og raunar mjög miklar áhyggjur alþingismanna. Saman mynda þessi atriði hins vegar stærsta pólitíska hneyksli Íslandssögunnar. Ég held að það sé ekkert orðum aukið því að hér er um það að ræða að skuldsetja þjóðina að því marki að efnahagslegu og pólitísku sjálfstæði hennar er stofnað í verulega hættu.

Númer 1. Einungis vextirnir, árlegir vextir, sem alltaf munu lenda á íslenskum skattgreiðendum í þessu Icesave-máli, af Icesave-samningunum, eru álíka miklir og stendur til að ná inn með fyrirhuguðum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar sem hafa verið hér til umræðu undanfarna daga og 1–2 vikur. Menn greinir á um hversu ráðlegir þessir skattar eru, hversu úthugsaðir. Ég held þó að allir séu sammála um það, eða nánast allir, að skattarnir muni leggja verulegar byrðar á íslenskan almenning og á íslensk fyrirtæki á þeim tímapunkti þegar þau mega hvað síst við því. Skattarnir eru raunar hættulegir vegna þess að með þeim er vegið að grunnstoðum sem þó eru enn sterkar í íslensku atvinnulífi en það er líka gengið enn lengra en áður í því að vega að stöðu íslenskra heimila. Þetta gerir meira en að taka til baka þær greiðslur sem félagsmálaráðherra hefur leyft frestun á vegna húsnæðislána, þetta sem sagt eykur enn greiðslubyrði íslenskra heimila, sem máttu nú varla við því, og hækkar reyndar líka skuldirnar um leið vegna verðbólguáhrifa.

Öll þessi neikvæðu áhrif, áhrif sem geta hamlað atvinnuuppbyggingu og setja íslensk heimili í enn meiri vanda, eru til þess eins að reyna samkvæmt bjartsýnum spám að ná álíka háum upphæðum og verið er að greiða eingöngu í árlega vexti vegna Icesave-lánanna. Vextirnir, ég ítreka það, munu alltaf lenda á íslenskum skattgreiðendum.

Númer 2. Nálgunin að undanförnu hjá ríkisstjórninni virðist hafa verið sú að reyna að drepa fólk úr leiðindum í þessu máli, þ.e. gera fólk svo leitt á umræðunni að það segi sem svo: Jæja, við nennum ekki að hlusta á þetta lengur, eigum við ekki bara að klára þetta? Það er nálgunin. Í stað þess að ræða staðreyndir málsins og takast á við þær er reynt með þessum endalausu spunaleikjum, sem eru aðalsmerki ríkisstjórnarinnar, að gera fólk svo þreytt á umræðunni að það segi bara: Ég get ekki meir, ég nenni ekki að hlusta á þetta, klárið þið málið.

Þetta er hins vegar hættulegur leikur því að þegar fram líða stundir og menn sitja uppi með það að borga 100 millj. kr. á dag bara í vextina, sem ég ítreka að lenda alltaf á íslenskum skattgreiðendum, ætli það dugi þá eitthvað fyrir ríkisstjórnina að segja: Það voru bara allir orðnir svo leiðir á þessari umræðu á sínum tíma, það þýddi ekkert að vera að spá meira í þetta? Nei, menn munu varla hugsa sem svo þegar árum saman er búið að borga 100 millj. kr. á dag í vexti og skera þá væntanlega niður sem því nemur. Það er alveg á hreinu að það mun þurfa að draga úr útgjöldum íslenska ríkisins sem nemur 100 millj. kr. á dag miðað við það sem hefði verið ef ekki hefðu komið til þessar vaxtagreiðslur.

Hvernig ætlar ríkisstjórn, sem hefur átt býsna bágt með að finna leiðir til að skera niður hjá hinu opinbera, að fara að því næstu árin, jafnvel áratugina, að skera niður um 100 millj. kr. á hverjum einasta degi? Það er að sjálfsögðu ekki hægt, og menn geta ekki leyft sér að vera þreyttir þegar þeir eru að ræða mál af þessari stærðargráðu.

Númer 3. Þetta mál átti að fara óséð í gegnum þingið. Það var reyndar þrætt fyrir það strax og samningarnir höfðu verið birtir, en hvers vegna birti ríkisstjórnin þá? Hún birti þá vegna þess að einhver lak öðrum samningnum, hollenska samningnum, í sjónvarpið þar sem honum var flett og sagt frá því hvað þar væri að finna og þá sagði ríkisstjórnin sem svo: Jæja, það er þá ekki annað að gera en að birta þetta. Fram að því höfðu fallið yfirlýsingar, bæði í nefndum þingsins og í fjölmiðlum, þess efnis að svona samningar væru stundum bara ekkert birtir yfir höfuð, í þeim væru viðkvæmar upplýsingar og þar fram eftir götunum. Lagt var til við þingnefnd að Ríkisendurskoðun yrði fengin til þess að segja þingmönnum svona undan og ofan af því hvað væri að finna í samningunum. Þingið átti hins vegar ekki að fá að sjá samningana sjálfa, þingið sem hefur það hlutverk að segja til um hvort og hversu miklar álögur megi leggja á almenning.

Það er kannski ekki að furða að ríkisstjórnin hafi ekki viljað birta samningana, enda hefur frá því að þeir voru birtir hvert stóra atriðið rekið annað, hver stórágallinn á þessum samningum rekið annan og þeir sem þekkja til slíkrar samningagerðar og eru ekki í þessum hópi vina og vandamanna ríkisstjórnarinnar, sem helst hafa reynt að verja hana, hafa bara aldrei séð annað eins.

Númer 4. Það er meðferð þessa máls í þinginu. Ég vek athygli á því að þrátt fyrir að þetta mál hafi verið hér til meðferðar mánuðum saman er ekki enn búið að fara formlega fram á það við einn einasta sérfræðing í enskum lögum að hann fari yfir samningana og gefi þinginu formlegt álit í greinargerð. Það er að sjálfsögðu með stökustu ólíkindum þegar ætlast er til þess að þingið fallist á samninga sem um eiga að gilda ekki íslensk lög heldur ensk lög og á að skera úr um fyrir enskum dómstólum að ekki einn einasti maður með þekkingu á enskum lögum skuli hafa verið fenginn til að fara yfir samningana, samninga sem geta ef allt fer á versta veg sett Ísland í þrot. Við höfum ekki einu sinni haft fyrir því, þingið, vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki verið fáanleg til þess, að fá formlegt álit eins einasta sérfræðings í enskum lögum.

Svona hefur verið á þessu haldið, menn hafa komið fram af sjálfsdáðum, að eigin frumkvæði, til að mynda samningamaðurinn Lee Buchheit um daginn. Þá var sagt að hann kæmi fram allt of seint. Hæstv. fjármálaráðherra hélt því fram. Var þá reyndar bent á að fyrrnefndur Lee Buchheit hefði boðið fram aðstoð sína nokkrum mánuðum áður en hún þá verið afþökkuð. Frá því að hann kom aftur fram og sagt var að ekki væri tími til að tala við hann eða hlusta á hann eru liðnar einhverjar vikur eða mánuðir. Sá tími hefur ekki verið nýttur til að tala við þann sérfræðing eða nokkurn annan. Með tíð og tíma hafa fleiri komið fram að eigin frumkvæði vegna þess að þeim misbýður hvernig íslenska ríkisstjórnin hefur haldið á þessu máli, nú síðast Daniel Gros, einn kunnasti hagfræðingur heims á sviði peningamála og forstöðumaður Evrópufræðastofnunarinnar í Brussel. Það var lítið gert með þá gagnrýni. Reyndar sagði hæstv. forseti þingsins hér fyrr í dag að til kæmi greina að kanna hvort málið færi aftur inn í nefnd áður en 2. umr. lýkur til að kanna þetta mál og fleiri stórmál sem hafa verið að koma upp. Ég hvet forseta þings til að fylgja því eftir.

Númer 5. Það hefur ekki verið leitað eftir efnahagslegri ráðgjöf svoleiðis að a.m.k. ríkisstjórnin sé með á nótunum um hvað felst í þessum samningum. Hæstv. forsætisráðherra hefur hvað eftir annað verið staðinn að því hér í þingsal að þekkja ekki samningana eða áhrif þeirra. Þegar um er að ræða álögur upp á hundruð milljarða króna á íslenska skattgreiðendur, íslenskan almenning sem þetta Alþingi á að verja, er auðvitað óforsvaranlegt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli ekki einu sinni hafa haft fyrir því að leita eftir upplýsingum, leita ráða svo að þeir a.m.k. viti hvað þeir eru að reyna að selja þjóðinni, hverju þeir eru að reyna að þröngva í gegnum þingið.

Númer 6. Seðlabanki Íslands var reyndar fenginn til að leggja mat á samningana og spurður sérstaklega hvort Ísland mundi lenda í greiðsluþroti vegna þeirra. Aldrei hefur nokkur einasti seðlabanki í sögu heimsins sagt að sitt eigið ríki hefði ekki efni á eigin skuldum, mundi fara í greiðsluþrot. Þetta er eins og að Landsbankinn hefði beðið greiningardeildina sína í september sl. að leggja mat á það fyrir sig opinberlega hvort bankinn væri á leiðinni í þrot. Hvað ætli hefði komið út úr því? Það segir sig eiginlega sjálft, það væri nánast andstætt hlutverki og markmiði Seðlabankans ef hann hefði skilað greinargerð þar sem fram kæmi að íslenska ríkinu væri stefnt í efnahagslega hættu með Icesave-samningunum, enda teygði bankinn sig býsna langt í forsendum sínum og hlaut mikla gagnrýni fyrir, m.a. frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Númer 7 lýtur líka að Seðlabankanum en mikið misræmi hefur komið fram í þeim greiningum og gögnum sem bankinn hefur látið frá sér, hugsanlega af þeirri ástæðu sem ég nefndi áðan, þeirri erfiðu stöðu sem bankinn er í. Í Peningamálum Seðlabankans frá því í maí á þessu ári var því haldið fram að 200–300 milljarðar kr., eða andvirði þeirra í jöklabréfum, væru í eigu óþolinmóðra fjárfesta sem mundu við fyrsta tækifæri selja bréfin, jafnvel með miklum afföllum og jafnvel á óhagstæðu gengi til þess að losna út. Þar væri um að ræða sem sagt 200–300 milljarða kr. sem yrði skipt úr íslenskum krónum í erlenda mynt og það mundi að sjálfsögðu veikja gengi krónunnar stórkostlega.

Tveimur mánuðum seinna, þegar Seðlabankinn gerir greiningu til að meta hvort við ráðum við Icesave-skuldbindingarnar, er þessi liður allt í einu horfinn. Þá er gert ráð fyrir að allir eigendur jöklabréfa muni halda eignunum sínum hér í íslenskum krónum næstu árin og ég held bara áratugina og það notað sem réttlæting fyrir því að gengið muni líklega ekki veikjast svo sérstaklega mikið jafnvel þó að við föllumst á Icesave-samningana. Allt í einu er þessi breyting orðin á tveimur mánuðum, nú er gert ráð fyrir að 200–300 milljarðar kr., sem í maí var gert ráð fyrir að færu úr landinu við fyrsta tækifæri og felldu krónuna, verði hér nánast endalaust.

Númer 8. Enn hefur ekki verið beðið um greiðslumat af hálfu óháðra aðila. Greiðslumat við gerð samninga sem þessara hlýtur að vera algjört grundvallaratriði. Jú, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var beðin um álit og gaf í flýti óformlegt álit sem lögð var áhersla á að skammur tími hefði verið fyrir og því væri ekki um endanlega niðurstöðu að ræða. Það væri sem sagt eingöngu verið að reifa álit Seðlabankans, sem ég gat um áðan, en ekki að leggja fram nýtt álit á möguleikum Íslands til að standa undir skuldbindingunni. Það er skemmst frá því að segja, eins og ég reyndar nefndi áðan, að álitið á greinargerð Seðlabankans var mjög gagnrýnið.

Númer 9. Óbein áhrif af skuldbindingunni kunna að vera miklu meiri en beinu áhrifin, þ.e. þessar beinu greiðslur sem ég nefndi í upphafi og eru nú nógu háar. Með óbeinum áhrifum á ég til að mynda við áhrif á gengið. Þessir samningar gætu orðið til þess að gengið héldist hér lágt og það má í raun vera augljóst að þegar menn taka á sig hundruða milljarða skuldbindingar í erlendri mynt veikir það gengið. Þetta hefur þau áhrif að flestöll íslensk fyrirtæki sem skuldsett eru í erlendri mynt og mikill fjöldi íslenskra heimila sitja uppi árum og áratugum saman með óviðráðanlegar skuldir, þ.e. gengi íslensku krónunnar á ekki möguleika á að styrkjast á ný. Icesave-samningarnir festa í sessi lágt gengi krónunnar og festa þar með líka í sessi þessar óviðráðanlegu skuldir íslenskra fyrirtækja svoleiðis að þeir sem hafa núna dag eftir dag reynt að þrauka með fyrirtæki sín eða heimilin, reynt að þrauka afborganirnar, sjá ekki fram á að þetta lagist vegna þess að það er búið að festa í sessi veikt gengi krónunnar á sama tíma og allar aðstæður ættu að vera fyrir hendi til að gengið styrktist jafnt og þétt. Við erum að flytja út svo miklu meira en við flytjum inn og það ætti að vera farið að styrkja gengið en gerir það ekki á meðan skuldsetningin er slík að afborganir og vextir af lánum halda genginu niðri. Icesave-samningarnir stefna þar af leiðandi íslenskum fyrirtækjum og heimilum í beina hættu og halda uppi skuldunum. Skuldirnar eru aðalvandamál Íslands núna, þetta er skuldakreppa og með þessu er verið að festa þá kreppu í sessi.

Númer 10. Í raun er upphæðin sem hefur verið til umræðu hvað varðar Icesave verulega vanmetin hvort sem við erum að spá í vextina upp á 40 milljarða kr. á ári eða þessa 800–900 milljarða kr. sem er skuldbindingin í heild. Ástæðan er sú að þetta eru peningar sem fara út úr landinu. Þeim er skipt í erlenda mynt og þeir eru farnir úr hagkerfinu. Það verða því ekki þessi margföldunaráhrif sem ávallt hafa orðið af útflutningi Íslendinga. Við fáum tekjur fyrir það sem við seljum úr landi og þær tekjur veltast áfram í íslenska hagkerfinu. Einhver selur fisk og fær greitt fyrir það, kaupir vöru eða þjónustu af manni sem fær þá borgað og kaupir af enn öðrum. Þessi margföldunaráhrif eru a.m.k. talin tvöföld eða þreföld og þar af leiðandi er ekki úr vegi að tvöfalda eða þrefalda þessa upphæð því að hér er um að ræða peninga sem fara úr kerfinu, tapast, ekkert fæst fyrir og þar af leiðandi nást ekki þessi margföldunaráhrif.

Númer 11. Það er gengisáhættan sem felst í því hvernig gengið var frá samningunum milli gamla Landsbankans og þess nýja. Þetta er eitt af þeim stóru atriðum sem hafa komið til umræðu að undanförnu. Þann 22. apríl sl. var skuld bankanna á milli fest í íslenskum krónum sem þýðir að ef gengi krónunnar veikist getur innstæðutryggingarsjóðurinn fengið allt greitt en gamli Landsbankinn þarf þá að halda áfram að borga og getur farið að greiða öðrum kröfuhöfum upp eftir því sem krónan fellur. Og hvar lendir það? Það lendir á íslenskum skattgreiðendum vegna þess að það er búið að koma á þessum öfugu gengisvörnum þannig að ekki aðeins öll áhættan kemur til með að lenda á íslenskum skattgreiðendum heldur er það beinlínis öruggt tjón á hvorn veginn sem fer, hvort sem gengið styrkist eða veikist.

Númer 12. Það er mikið talað um hagvöxt, menn gera ráð fyrir ótrúlegum hagvexti næstu árin, hvers vegna svo sem það ætti að vera eins og ríkisstjórnin hefur haldið á málum. Það er reiknað með alveg gríðarlegum hagvexti, methagvexti hér ár eftir ár. (Gripið fram í.) Og vegna þessa hagvaxtar, þessa loftbóluhagvaxtar sem menn sjá fyrir sér, telja þeir að það muni nægja til þess að við getum staðið undir þessum skuldbindingum. Þetta er hins vegar kolröng nálgun og er það sama og bankarnir lögðu upp með þegar þeir voru að réttlæta skuldsetningu sína. Þeir sögðu alltaf: Já, skuldirnar hafa aukist mikið en veltan hefur aukist þeim mun meira og hagvöxtur er í rauninni ekkert nema velta. Hagvöxtur er ekki tekjur ríkisins, hagvöxtur er það hversu oft menn kaupa og selja sín á milli. Ríki hafa oft í gegnum tíðina verið með prýðilegan hagvöxt á bókunum en verið í eilífu basli með að standa undir skuldum vegna þess að þeir hafa ekki haft tekjurnar frá þessum hagvexti.

Fræg dæmi um það eru að sjálfsögðu ríki Austur-Evrópu sem sum hver, ekki hvað síst Austur-Þýskaland, voru mjög skuldsett í erlendri mynt, eins og við erum að lenda í nú, en voru alltaf með mikinn hagvöxt. Samt var þetta eilíft stríð við að verða sér úti um erlendan gjaldeyri og menn fóru ótrúlega frumlegar leiðir til þess, voru meira að segja farnir að selja fanga til Vestur-Þýskalands til að kría út gjaldeyri til að geta borgað af þessum erlendu lánum og þeir þurftu erlend lán til að geta fjárfest í tækni, tækjabúnaði og öðru frá Vesturlöndum. Á endanum var staðan orðin þannig samkvæmt skýrslu sem unnin var rétt fyrir fall Berlínarmúrsins að Austur-Þjóðverjar voru búnir að reikna út að þeir gætu ekki haldið ríki sínu gangandi vegna þess að erlendar skuldir væru slíkar að þeir hefðu enga leið til að verða sér úti um gjaldeyri, sama hvað liði hagvextinum, sama hvað liði allri Trabanta-framleiðslunni og þeim hagvexti sem er þekktur úr öllum þeim verksmiðjum sem voru um allt Austur-Þýskaland. Það dugði ekki til því að þeir höfðu ekki erlendan gjaldeyri og ríkið fór í þrot.

Númer 13. Í þessu máli hefur ríkisstjórnin hvað eftir annað leyft sér að koma fram með hreinar og klárar rangfærslur. Í flestum tilvikum er þegar komið í ljós hversu rangt og vitlaust þetta allt saman var en í mörgum tilvikum á það enn eftir að sannast. Dæmi um slíkar rangfærslur er þegar því var haldið fram strax og samningarnir voru kynntir í upphafi að þeir mundu styrkja gengi krónunnar vegna þess að óvissa væri að eyðast. Eins og ég nefndi áðan er að sjálfsögðu algjör fásinna að það styrki gengi krónunnar að taka á sig gífurlegar skuldbindingar, skuldbindingar sem taka engin mið af Brussel-viðmiðunum sem átti þó að tryggja. Það er mjög einfalt dæmi sem ég mun líklega fara yfir í ræðu síðar hvernig skuldsetning í erlendri mynt til lengri tíma litið getur ekki annað en fellt gengið.

Önnur rangfærsla er lánshæfismatið. Því er haldið hér fram að lánshæfismat styrkist við það að eyða óvissunni og þegar bent er á að lánshæfi sé nú yfirleitt reiknað út frá skuldsetningu og aukin skuldsetning sé ekki til þess fallin að bæta lánshæfismatið er svarið: Já, en lánshæfismatsfyrirtækin voru búin að gera ráð fyrir þessu og þess vegna munu Icesave-samningarnir styrkja lánshæfismatið.

Það sagði mér reykingamaður einn sem fer stundum til læknis og er þá ævinlega skammaður fyrir reykingarnar að þetta væri eins og ef hann færi til læknis og spyrði lækninn hvort reykingarnar gætu stytt líf hans og læknirinn svaraði: Nei, þær gera það ekki. Ég er nefnilega þegar búinn að gera ráð fyrir því að þú reykir og þar af leiðandi hafa reykingarnar engin áhrif á lífslíkur þínar eða heilsu. Þetta er röksemdafærslan um lánshæfismatið.

Númer 14. Það er þetta margumtalaða sjö ára skjól. Líklega er meginkosturinn við þessa samninga að mati ríkisstjórnarinnar sá að ekki þurfi að byrja að borga fyrr en eftir sjö ár, það sé greiðslufrestur, hægt að slá vandanum á frest. Það er sem sagt fallið fyrir því dæmigerða tilboði sem oft er notað þegar bílar, sjónvörp eða raftæki önnur eru seld að menn þurfi ekki að byrja að borga fyrr en einhvern tíma seinna. Þetta kynnir ríkisstjórnin sem meginkost þessara Icesave-samninga vegna þess að nú séum við í slíkum vandræðum að aðalatriðið sé að við þurfum ekki að byrja að axla þessar byrðar fyrr en eftir sjö ár. Það felur hins vegar í sér algert skilningsleysi á samspili tíma og peninga því að þessar skuldir byrja að sjálfsögðu strax að hafa áhrif, strax og til þeirra er stofnað reikna menn með því að Ísland muni þurfa að standa undir þessu og það hefur til að mynda áhrif á lánshæfismatið. Það að telja sér trú um að þetta sjö ára skjól skipti öllu máli er líklega fyrst og fremst tilkomið vegna þess að þeir sem nú ráða för í ríkisstjórninni gera ekki ráð fyrir að vera sjálfir enn þá í stjórnmálum eftir sjö ár. Þar af leiðandi er þetta bara vandamál fyrir einhverja aðra, einhverjir aðrir verða teknir við þegar þarf að byrja að borga þessa tugi milljarða á ári hverju og ekki fyrir þau að hafa áhyggjur af því. Er þetta trúverðug eða skynsamleg stefna í ríkisfjármálum? Nei, þetta er sama stefna og setti hér allt í þrot í loftbóluhagkerfinu.

Númer 15. Allri utanaðkomandi gagnrýni er vísað á bug með orðum á borð við: Ja, ég er bara ósammála, eða stundum með því að reyna að gera lítið úr þeim sem kemur með gagnrýnina. Það er farið á hið lægsta plan og í persónulegt níð um þá sem gagnrýna stjórnina. En þeir eru fleiri og fleiri utanaðkomandi sem gagnrýna þessa stjórn, m.a. þeir ráðgjafar sem ríkisstjórnin hefur ráðið og gefast einfaldlega upp á henni. Það má nefna Evu Joly sem benti á ýmsa vankanta á því hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessu máli. Hvert var svarið þá? Evu Joly sem hafði fram að því verið kynnt sem bjargvættur ríkisstjórnarinnar var sagt að hún ætti ekki að vera að skipta sér af málum sem vörðuðu hana ekki. Hún ætti að einbeita sér að því sem hún hefði verið ráðin til og þetta væri utan hennar sviðs.

Nú nýlega gagnrýndi Mats Josefsson ríkisstjórnina, sérfræðingur hennar í bankamálum. Þá var hann allt í einu gengisfelldur, ekkert að marka manninn sem hafði verið stoð og stytta ríkisstjórnarinnar fram að því. Ég nefndi Daniel Gros sem kom nú um helgina með greinargerð. Það var reynt að gera lítið úr ábendingum hans og reyndar seilast menn alveg ótrúlega langt í því þegar embættismaður og aðstoðarmaður fjármálaráðherra heldur því fram að Daniel Gros skilji ekki vaxtaútreikningana og hann geri sér líklega enga grein fyrir því hvernig jafnræðisreglan gildi hjá Evrópusambandinu og í EES-samningnum. En þess má geta að Daniel Gros er líklega einn fremsti sérfræðingur heims á sviði peningamálahagfræði og forstöðumaður Evrópufræðastofnunarinnar í Brussel, en örfræðingur fjármálaráðherra sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kallaði svo veit betur. Hann veit betur en allir þessir sérfræðingar.

Það mætti líka nefna fyrrverandi formann Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem benti á að býsna illa hefði verið haldið á þessu máli að ýmsu leyti og menn farið í þetta sem sekir menn. Það var beðið um það í fjárlaganefnd að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar kæmi á fund nefndarinnar til að ræða þetta. Flokksfélagar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur höfnuðu því, vildu ekki fá sinn fyrrum formann á fund nefndarinnar til að ræða málið, vildu ekki heyra hvað hún hefði að segja. Það er sama hver talar. Þessi ríkisstjórn vill ekki heyra sannleikann í þessu máli því að innst inni vita ríkisstjórnin og þingmenn hennar hversu berskjölduð þau eru í málflutningi sínum.

Númer 16. Tvisvar hefur því verið spilað út með pompi og prakt að 90% heimtur verði, það fáist 90% upp í forgangskröfur á gamla Landsbankann. Það gleymist reyndar að forgangskröfur eru aðeins að hluta Icesave þótt raunar sé það langstærsti hlutinn, það verður að viðurkennast, en það gleymist einnig hversu mikil áhætta er í þessu fólgin. Við sáum núna síðast að það er verið að endurvinna matið eina ferðina enn og skeikaði þá einum 30–40 milljörðum kr. En aðalatriðið og það sem menn reyna alltaf að komast fram hjá með því að slá því fram að það náist 90% endurheimtur er að vextirnir skipta langmestu máli, vextir sem verða alltaf í kringum 300 milljarðar kr. miðað við fyrirliggjandi samninga og 300 milljarðar kr. sem alltaf lenda á íslenskum skattgreiðendum svoleiðis að aðalatriðið er ekki hvort það fást 90%, 70%, eða 100% þess vegna, upp í forgangskröfurnar, aðalatriðið er vextirnir af þessum hræðilegu samningum.

Númer 17. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi, því frumvarpi sem við erum að ræða hér, vörpuðum við frá okkur réttinum til þess að fá stöðu okkar bætta jafnvel þótt dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að rétturinn hafi verið okkar megin. Það hefur ósköp lítil áhrif þó að öll sú ólíklega atburðarás fari af stað sem þarf til að sýna með óyggjandi hætti fram á það sem við höfum haldið fram, að okkur beri ekki lagaleg skylda til að borga, jafnvel þó að einhverjir aðrir verði til þess að sýna fram á það, því að við ætlum ekki að gera það samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi, jafnvel þó að einhverjir aðrir sýni fram á það fyrir okkur dugar það samt ekki eitt og sér til þess að samningarnir verði endurskoðaðir. Hvað segir þetta um trú viðsemjenda okkar á lagalegri stöðu sinni? Þeir vilja þvinga okkur til að fallast á samninga sem eru þess eðlis að jafnvel þó að sýnt verði fram á að þeir hafi ekki átt þessa kröfu á okkur neyðumst við samt til að borga hana.

Númer 18 varðar endurskoðunarákvæði samninganna. Það var mjög mikið gert úr þessu ákvæði þegar samningarnir voru kynntir fyrst. Það átti að vera stóra haldreipið að í samningunum væri endurskoðunarákvæði þannig að ef hlutirnir þróuðust á versta veg eða verr en ríkisstjórnin spáði væri hægt að fá endurskoðun samninganna. Þegar menn fóru að skoða orðalagið kom reyndar í ljós að það var ósköp lítið eða ekkert hald í þessu, það fól ekki í sér annað en skyldu til að setjast niður í kaffiboði, eins og það var kallað, og ræða málin. Það var hins vegar engin skylda til að bregðast við, en ekki var síður merkilegt að fljótlega kom í ljós að skilyrði þess að endurskoðunarákvæðið yrði virkjað voru þegar komin fram. Skuldirnar voru þegar orðnar miklu meiri en reiknað var með í samningunum, þ.e. skuldsetning Íslands, svoleiðis að þegar var búið að virkja endurskoðunarákvæðið. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki enn haft fyrir því að fara í þetta kaffiboð sem endurskoðunarákvæðið á að tryggja. Raunar hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hlaupið undir bagga með kröfuhöfunum eins og hann gerir svo oft og gengur gegn eigin ráðgjöf, eigin niðurstöðum því að í skýrslu sjóðsins frá því í nóvember var því haldið fram að skuldsetning upp á 240% væri augljóslega óviðráðanleg en nú, þegar sami aðili, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, segir að skuldsetningin sé 310%, heldur hann því fram að hægt sé að leysa úr þessu. Þegar maður spyr fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hvernig standi á því að skuld sem augljóslega var óviðráðanleg fyrir nokkrum mánuðum sé nú orðin vel viðráðanleg og meira til verða svörin dálítið undarleg. Eitt af því sem er nefnt til sögunnar er að hert hefur verið á gjaldeyrishöftum og þau muni þá vara lengur en gert var ráð fyrir. Þetta sagði fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi við þingmenn Framsóknarflokksins að væri ein af ástæðunum fyrir því að meiri skuldsetning væri nú bærileg. Fleira er tínt til, lífeyrissjóðirnir geti hlaupið undir bagga, innflutningur verði enn minni, væntanlega vegna þess að þjóðin verður enn fátækari, og svona réttlætir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þetta, viðurkennir í rauninni að verið sé að fara með Ísland sömu leið og þau ógæfusömu ríki sem leitað hafa til sjóðsins áður, til að mynda Argentína, enda líklega ekki að ástæðulausu sem fjármálaráðherra Bandaríkjanna sagði þegar hann heyrði að Íslendingar ætluðu að leita á náðir sjóðsins að þeir ætluðu að fá koss dauðans. Því miður er þróunin öll á þann versta veg sem menn hafa óttast varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Númer 19. Fráleitar staðhæfingar hafa heyrst um alþjóðasamfélagið sem sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar tala yfirleitt um sem einhvern skipulagðan félagsskap sem hafi höfuðstöðvar einhvers staðar, líklega í Brussel, og hittist á reglulegum fundum til að ræða hvort það eigi að útskúfa einhverjum eða refsa einhverjum. Þetta er kannski meira eins og gengi, glæpagengi eða eitthvað slíkt sem menn geta átt aðild að en ef þeir eru ekki virkir meðlimir er þeim refsað. Svona er talað um þetta alþjóðasamfélag þannig að ef Íslendingar ætli að leita réttar síns, standa á lagalegum rétti sínum verði þeir svoleiðis teknir í gegn af þessu alþjóðasamfélagi, félagið muni sjá til þess að hér fari allt í rúst. Einn sagði reyndar í samfylkingarþætti í útvarpinu að Ísland yrði eins og eftir borgarastyrjöld eftir að alþjóðasamfélagið væri búið að láta okkur fá það óþvegið ef við gerðum ekki allt eins og ætlast væri til. Hvað er verið að tala um? Það er ekki verið að tala um annað en að Íslendingar verji lagalegan rétt sinn, a.m.k. bendi á hann og haldi honum fram. Auðvitað mundi það ekki kalla á efnahagslegar refsiaðgerðir, árásir eða útskúfun alþjóðasamfélagsins þó að menn gerðu það. Það er þvert á móti ætlast til þess að ríki standi á rétti sínum, og einungis ríki sem gera það njóta virðingar í alþjóðasamfélaginu. Ef menn hins vegar gefa allt eftir verða þeir undir í þessu alþjóðasamfélagi, en að halda því fram að menn muni níðast á Íslandi fyrir það eitt að standa á lagalegum rétti sínum er fullkomlega órökrétt og stenst engan samanburð.

Nýlegt dæmi eru samningar Breta við Líbíumenn. Líbía er varla fyrirmyndarríki, væntanlega mun hættulegra en Ísland, en engu að síður voru Bretar tilbúnir að gera viðskiptasamninga við það ríki og sleppa dæmdum hryðjuverkamanni sem var dæmdur fyrir morð á öðru eða þriðja hundraði manna til að gera olíusamning, samning um verslun með olíu. Þetta er bara eitt af fjölmörgum dæmum um að ríki hugsa fyrst og fremst um efnahagslega hagsmuni sína. Að halda því fram að ríki sem á gríðarlega hagsmuni undir því að Ísland rétti úr kútnum, þ.e. Bretland, Holland og Þýskaland, sjái sér hag í því að leggja íslenskt efnahagslíf í rúst nær einfaldlega ekki nokkurri átt.

Númer 20. Fullyrðingar þess efnis að vextirnir séu sanngjarnir, 5,6% vextir í þessum samningum, standast ekki. Þeir eru augljóslega ekki sanngjarnir. Margir hafa bent á það með samanburði við vexti á öðrum samningum. Raunar ættu ekki að vera neinir vextir á þessum samningum vegna þess að um er að ræða uppgjör þrotabús og það er ekki venja að greiða vexti í slíkum tilvikum. En Daniel Gros benti á það í greinargerð sem var fjallað um í fjölmiðlum um helgina að Bretar og Hollendingar væru í raun að græða stórar upphæðir, tugi milljarða, jafnvel hundruð milljarða, á því að kúga Íslendinga með þessum hætti vegna þess að þeir tækju lán einhvers staðar annars staðar á miklu lægri vöxtum, lánuðu okkur það svo á hærri vöxtum og hirtu mismuninn. Þetta er sem sagt ekki bara spurning um að bæta þeim eitthvert tjón, heldur eru þeir að nota tækifærið til að græða á vaxtamuninum. Þetta telja sumir þingmenn ríkisstjórnarinnar sjálfsagt mál vegna þess að þetta sé eflaust áhætta fyrir þá. Áhætta? Þá hljóta þeir að verða að viðurkenna að hætta sé á því að Ísland fari í þrot, verði gjaldþrota, en þeir telji þetta líka réttlætanlegt vegna þess að Íslendingar hafi hagað sér svo illa að þeir eigi líklega skilið að borga eitthvað aukalega. Þar eru menn komnir út á mjög undarlegar brautir þegar á að gera íslenskan almenning ábyrgan fyrir því sem íslenskir bankamenn gerðu í krafti EES-samningsins.

Númer 21. Gjaldfellingarákvæði samninganna eru víðtækustu gjaldfellingarákvæði sem sést hafa í svona samningum, held ég að mér sé óhætt að fullyrða. Þau eru þess eðlis að Bretar og Hollendingar geta, ef einhverjar af fjölmörgum uppákomum verða, ákveðið einhliða að við eigum að borga allt upp í topp strax, gjaldfella einfaldlega samningana og við þurfum að skrapa saman 700, 800, 900 milljörðum kr. í erlendri mynt. Augljóslega mundi það setja ríkið í þrot en þetta er þó ekki meira áhyggjuefni en svo að gjaldfellingarákvæðin standa þarna enn í samningunum. En hver er þá samningsstaða okkar í öðrum samningum sem við munum e.t.v. þurfa að standa í ef við erum með þessi gjaldfellingarákvæði þarna inni, til að mynda varðandi fiskveiðiréttindi í íslenskri lögsögu eða orkumál, ég tala nú ekki um viðræður við Evrópusambandið? Hvernig er það þegar við erum með þessar skuldir hangandi yfir okkur og þessi gjaldfellingarákvæði? Hvernig ætli okkur gangi þá að eiga við bresku stjórnmálamennina í samningum um fiskveiðiréttindi? Ætli það verði skyndilegur viðsnúningur í Bretlandi og menn fari allt í einu að vorkenna okkur og segja sem svo: Ja, við skulum ekki ganga neitt á þá hvað varðar fiskinn. Látum Íslendinga bara vera með fiskinn sinn. Ætli það yrði ekki eitthvað nýtt?

Númer 22. EES-samningurinn. Það gleymist jafnan í þessari umræðu þar sem talað er um Íslendinga eins og Íslendingar sem þjóð séu nánast glæpamenn og eigi ekkert gott skilið að það sem íslensku bankarnir gerðu, til að mynda með stofnun Icesave-reikninganna, gerðu þeir í krafti gildandi samninga við Evrópusambandið, EES-samninginn. Þeir uppfylltu öll skilyrði þeirra samninga. Þeir voru einfaldlega að gera það sem ætlast er til með EES-samningnum. Þetta er sú stefna sem innleidd var með þeim samningum og þeim köflum þeirra sem fjalla um frjálsa flutninga fjármagns. Því var haldið fram árum saman í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að það væru ekki gjörðir stjórnmálamannanna sem sköpuðu þann hagvöxt sem hér var eða útrásina þess vegna eða nokkra uppbyggingu í landinu, það væri EES-samningurinn, þetta væri allt honum að þakka vegna þess að allt sem væri að gerast hér, allar þessar breytingar, ekki hvað síst útrás bankanna, væru afleiðing af EES-samningnum, hefði ekkert með þessa stjórnmálamenn að gera. Þeir ættu þess vegna ekki að hreykja sér af árangrinum.

Nú verður allt í einu viðsnúningur, EES-samningurinn tengist þessu ekki neitt. Þetta eru bara þessar gömlu ríkisstjórnir, og Samfylkingin gleymir að sjálfsögðu einu sinni sem oftar sínum tíma í ríkisstjórn um leið og hver dagur er liðinn.

Númer 23. Þær greinargerðir sem komið hafa fram um þetta mál með mjög alvarlegum ábendingum án þess að vera svarað tilhlýðilega í þinginu. Ég nefni sem dæmi greinargerð sem Elvira Mendez, prófessor í Evrópurétti við Háskóla Íslands, gerði um málið fyrir þingmenn Hreyfingarinnar að ég tel og sýndi fram á að á þessum Icesave-samningum væru ótal gallar sem þyrfti að ræða, þyrfti að skera úr um. Eiginlega engu af þessu hefur verið svarað. Það sama á við um aðrar álitsgerðir utan að. Hvers vegna hefur þessu ekki verið svarað, hvers vegna hefur svona lítið verið gert úr þessu, og jafnvel álitsgerðum sem styrkja samningsstöðu Íslendinga stungið undir stól? Það er einfaldlega vegna þess að þessi ríkisstjórn vill ekki fá rök máli sínu til stuðnings, máli Íslands til stuðnings ætti ég kannski frekar að segja vegna þess að mál ríkisstjórnarinnar hefur fyrst og fremst verið það að tala máli Breta og Hollendinga, kvalara okkar í þessu máli. Þannig hafa hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra talað, hæstv. félagsmálaráðherra að sjálfsögðu ekki hvað síst líka. Þeir hafa komið í ræðustól og gert lítið úr öllum rökum sem hníga að hagsmunum Íslands, sama hversu sterk þau eru, en jafnframt lagt ofuráherslu á það hversu sterk staða Breta og Hollendinga væri og þar af leiðandi ættu þeir ekki annan kost en að samþykkja hvað sem okkur byðist.

Númer 24 er það umboð sem samninganefndinni var veitt og var að sjálfsögðu með stökustu ólíkindum. Samninganefndin átti ekki að fara út til að halda því fram að okkur bæri ekki endilega lagaleg skylda til að greiða þetta eða halda fram rétti Íslendinga, benda á skaðann af hryðjuverkalögunum, benda á skaðann af yfirtöku Kaupþings í Bretlandi. Nei, það var ekki hlutverk nefndarinnar að verja hagsmuni Íslands með þeim hætti. Hlutverk nefndarinnar samkvæmt því bréfi sem hún fékk var einfaldlega að semja um greiðslur og það gerði hún á mettíma vegna þess að nefndin nennti ekki að sitja yfir þessu lengur, samdi um greiðslur með 5,6% vöxtum með fjöldanum öllum af ákvæðum sem setja íslenskt efnahagslíf í stórhættu.

Númer 25 eru fullyrðingarnar um að við verðum að klára Icesave-samningana til að fá lán. Ég verð að fara yfir þetta og fjölmörg önnur atriði í seinni ræðum. Ég er ekki búinn með þriðjung af þeim atriðum sem ég ætlaði að nefna sem helstu atriði málsins í þessari fyrstu ræðu svo ég verð að biðja virðulegan forseta að setja mig aftur á mælendaskrá því að tími minn er liðinn.