Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 17:52:28 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hún er rétt að byrja og ég get vart beðið eftir seinni ræðum þingmannsins því að hann á greinilega eftir að fara yfir margt ef ég þekki hann rétt.

Ég þakka honum sérstaklega fyrir marga athyglisverða punkta sem er gott að rifja upp í umræðunni. Ég tek svo sannarlega undir með hv. þingmanni að ég er hrædd um að tilgangur ríkisstjórnarinnar sé einmitt eins og hv. þingmaður orðaði það, að reyna að drepa fólk úr leiðindum í þessu máli, reyna að svæfa fólkið, hugsanlega dreifa bara klóróformi til að enginn átti sig á því hvað er að gerast.

Ég spyr hv. þingmann hver hættan sé að hans mati við það að þingið fái meiri tíma til að fara yfir málið, til að verja betur íslenska hagsmuni. Fáir þekkja þetta mál betur en hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hver er raunverulega hættan við það að þingið fái meiri tíma til að fara yfir málið? Hvaða hagsmunum gæti verið ógnað með því að fá meiri tíma til að fara yfir það?