Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 17:56:17 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að athugasemdinni um ríkisstjórnina. Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt og stórmerkilegt að þessi ríkisstjórn skuli stöðugt vera að hóta því að sprengja sjálfa sig í loft upp fái hún ekki sitt fram í þessu máli. Ég man ekki eftir annarri ríkisstjórn sem reynt hefur sömu taktík í umræðu í þinginu eins og þá að hóta að leggja sjálfa sig niður fái hún ekki allt sitt fram. (Gripið fram í: Gengur vel.) Og því miður virðist þetta hafa áhrif á einhverja innan stjórnarinnar sem láta með þessu móti blekkja sig. Það var sérstaklega merkilegt í tilviki Vinstri grænna sem ættu að gera sér grein fyrir því að Samfylkingin mun ekki slíta stjórninni fyrr en hún hefur klárað tiltekið mál í útlöndum.

Að sjálfsögðu hefðum við framsóknarmenn verið til í að taka þátt í því að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þrátt fyrir allt tal ríkisstjórnarinnar um samráð og nýja pólitík hefur verið haldið þannig á þessu máli að stjórnarandstaðan hefur ekki einu sinni verið upplýst um gang mála, hvað þá að leitað sé eftir þátttöku hennar í úrlausn þess.