Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 17:57:34 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir efnislega og yfirgripsmikla ræðu. Það var athyglisvert þegar hann sagði í ræðu sinni áðan að hann teldi að Icesave-samningarnir væru á vissan hátt að festa í sessi lágt gengi þó að allar forsendur væru að öðru leyti til þess að gengi íslensku krónunnar gæti styrkst og vísaði auðvitað til þess að nú er ríkulegur vöruskiptajöfnuður, þetta lága gengi gerir það að verkum að þannig er nú.

Þetta vekur upp spurningar í ljósi þess að í áliti Seðlabanka Íslands er því slegið föstu, sem er auðvitað hrollvekjandi spá, að raungengi íslensku krónunnar verði mjög lágt, ekki bara lágt heldur mjög lágt, ekki bara í ár heldur á næstu árum. Þetta er hin hrollvekjandi spá Seðlabanka Íslands og nú spyr ég hv. þingmann hvort hann sé þeirrar skoðunar að Seðlabankinn sé með þessu í raun og veru að taka inn hin skaðvænlegu áhrif af Icesave-samningunum eins og þeir samningar liggja fyrir og hvort þetta sé ekki vísbending um (Forseti hringir.) að við séum að festa okkur í þessum vítahring lágs gengis með tilheyrandi afleiðingum fyrir þá sem verða fyrir því.