Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 18:10:57 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þór Saari bendir hér á grundvallargallann við þessa umræðu, það er búið að klára þetta mál af hálfu þingsins. Í gildi eru lög og það stóð aldrei til að ríkisstjórnin færi með þau lög út sem einhvers konar samningstexta, eitthvað til þess að leggja fram sem samningstilboð. Reyndar tók ríkisstjórnin skýrt fram að þannig væri þetta ekki hugsað á sínum tíma og því var haldið fram hér af ráðherrum og formanni fjárlaganefndar að Bretar og Hollendingar væru ekki í aðstöðu til annars en að samþykkja þetta.

Það er í rauninni ekkert annað en móðgun við þingið og íslenskt lýðræði að ríkisstjórnin skuli koma aftur inn með lögin og krefjast þess að gerðar verði breytingar í samræmi við fyrirskipanir að utan, að færa löggjafarvaldið frá Alþingi og til erlendra stjórnvalda. Þetta hlýtur að vera einhver mesta niðurlæging sem íslenska þingið hefur staðið frammi fyrir.