Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 18:16:22 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem hæstv. forseti segir hér af forsetastól, hún hefur ekkert vald til þess að skipa ráðherrum eða þingmönnum í ræðustól. Ég ætla í þennan ræðustól þegar minn tími er kominn til að fara í þennan ræðustól, ég geri það hvorki eftir beiðni varaformanns Sjálfstæðisflokksins né annarra hér inni, ég geri það bara þegar minn tími er kominn. (Gripið fram í.) Við áttum fund áðan með fulltrúum stjórnarandstöðunnar, m.a. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þar sem m.a. var boðað að hér yrðu langar umræður fram eftir allri þessari viku og ég mun bara finna mér hentugan tíma í umræðum til að svara því sem til mín hefur verið beint. Ég hef ítarlega hlustað á það sem fram hefur komið hjá stjórnarandstöðunni og lesið öll þau nefndarálit sem hafa verið lögð fram, en ég ræð því sjálf, hv. þingmenn, hvenær ég held ræðu mína hér, hvort sem það er í dag, á morgun eða hinn, eða hvað stjórnarandstaðan ætlar að halda lengi uppi umræðum í þessu máli og koma þá í veg fyrir að önnur mikilvæg mál (Forseti hringir.) séu hér rædd. (Gripið fram í: Rangt.)