Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 18:20:25 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Bara til að forða hæstv. forsætisráðherra frá misskilningi var aldrei ætlunin að beita neinu ofbeldi til þess að hæstv. forsætisráðherra fengist til að tala í þessari umræðu. Hins vegar höfðu þingmenn vænst þess að hæstv. forsætisráðherra fyndi sig knúinn til þess að taka þátt í umræðu um þetta mikilvæga mál sem ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra ber ábyrgð á. Auðvitað hefur hæstv. forsætisráðherra frjálsan vilja eins og við öll. Ég hefði ímyndað mér að í lýðræðislegri umræðu eins og þessari hefði hæstv. forsætisráðherra löngun til þess að taka þátt í henni. Svo er ekki að heyra því að hæstv. forsætisráðherra talaði um að hún ætlaði ekki að láta draga sig inn í þessa umræðu, eins og það sé einhver sérstök nauðung af hennar hálfu að taka þátt í umræðu um þetta stóra og mikilvæga mál og skiptast á skoðunum við okkur. Það hlýtur að vera krafa okkar til hæstv. forsætisráðherra og annarra ráðherra að þeir taki með eðlilegum hætti þátt í þessari umræðu þegar verið er að ræða efnisatriði málsins og bregðist við þeim athugasemdum sem hafa verið fluttar inn í þingið með þessum hætti (Forseti hringir.) en svo er að heyra að það verði ekki gert, heldur einhvern tímann eftir dúk og disk þegar hæstv. forsætisráðherra lætur sér þóknast (Forseti hringir.) að taka þátt í þessari umræðu.