Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 18:21:52 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:21]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér kemur hæstv. forsætisráðherra og byrjar á því að tilkynna að hún ráði sér sjálf og jafnframt að hún ætli sko ekkert að láta neyða sig til að taka þátt hér í umræðum. Vill hæstv. forsætisráðherra sem sagt ekki tjá sig um þetta mál sem ríkisstjórn hennar er að reyna að þröngva í gegnum þingið? Það er kannski ástæða fyrir því. Kannski er hæstv. forsætisráðherra byrjuð að gera sér grein fyrir því hversu slæmt mál ríkisstjórnin er með í höndunum og treystir sér þar af leiðandi ekki til að verja það.

Hæstv. forsætisráðherra segist ekki ætla að tala fyrr en sinn tími verði kominn. Ég held að menn hafi almennt talið að hennar tími væri kominn og séu búnir að bíða eftir því að hún nýti sinn tíma til að gera eitthvað af því sem hún boðaði, ekki bara í kosningabaráttunni heldur hefur boðað á undanförnum árum.

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem upp til að ræða fundarstjórn forseta er einfaldlega til að spyrja frú forseta hvort ekki sé rétt að gera athugasemdir við þennan málflutning hæstv. forsætisráðherra gagnvart Alþingi Íslendinga.