Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 18:27:16 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Um það leyti sem Alþingi var að afgreiða Icesave-frumvarpið hið fyrra sagði hæstv. utanríkisráðherra eitthvað á þá leið að dálítinn skammt af hugmyndaflugi þyrfti til að útskýra fyrir viðsemjendum okkar, Hollendingum og Bretum, þá fyrirvara og þau skilyrði sem Alþingi hefði sett við því frumvarpi sem upphaflega var lagt fram á Alþingi fyrr um sumarið.

Ég verð að játa að ég varð dálítið hissa yfir þessari myndrænu líkingu hæstv. utanríkisráðherra, ekki að mig undraði að hæstv. utanríkisráðherra kæmi laglega fyrir sig orði í þessum efnum eins og mörgum öðrum, heldur átti ég dálítið erfitt með að ímynda mér að þeir fyrirvarar sem Alþingi setti við upphaflega frumvarpið um Icesave rúmuðust innan þess ramma sem það frumvarp gekk út á. Upphaflega frumvarpið var auðvitað mjög einfalt að allri gerð, það var bara svona: Við samþykkjum, við samþykkjum. Að öðru leyti var ekki um neina fyrirvara að ræða. Þeir fyrirvarar voru einfaldlega settir inn í frumvarpið í meðhöndlun Alþingis þegar hæstv. ríkisstjórn var komin í þá stöðu að hún hafði ekki vald á málinu og gat ekki komið máli sínu fram nema með þeim hætti að ganga til samninga við Alþingi um það að breyta frumvarpinu í stórum efnislegum atriðum til að það næði fram að ganga.

Þess vegna beið ég nokkuð spenntur eftir því að sjá með hvaða hætti þessu máli yrði lokið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Alþingi hafði sett málið niður með þessum hætti, Alþingi hafði ákveðið hvernig það ætti að líta út og hvernig samningarnir við Breta ættu í raun og veru að líta út, þ.e. sá hluti samninganna sem laut að sjálfri ríkisábyrgðinni. Ég verð að játa að þó að ýmislegt hafi velst upp í huga minn í sambandi við þetta og ég hafi mjög velt fyrir mér þeim kostum sem hæstv. ríkisstjórn kynni að ræða við viðsemjendur sína datt mér nú ekki í hug að við mundum sjá aðra eins niðurstöðu og þá sem hæstv. ríkisstjórn lagði síðan fyrir okkur með því frumvarpi til laga, 76. máli, sem við ræðum í dag.

Þetta frumvarp er í raun og veru algjört kollsteypufrumvarp. Enn og aftur er gengið í berhögg við vilja Alþingis rétt eins og var gert hér í sumar þegar gengið var frá fyrri Icesave-samningunum og þeir lagðir fyrir þingið. Öllu er snúið á hvolf. Fyrirvararnir sem voru settir við frumvarpið í upphafi eru útþynntir og gerðir að mjög litlu, verið er að bakka út frá fyrirvörunum og þynna þá út að öllu leyti og þetta eru auðvitað hinir örgustu pólitísku fimleikar sem við horfum hér upp á, þetta kollsteypufrumvarp sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram. Ég ætla að segja það að ef keppt væri í pólitískum loftfimleikum á Ólympíuleikunum og við Íslendingar sendum ríkisstjórnina eins og hún leggur sig til að taka þátt í þeirri grein er ég alveg sannfærður um að hún mundi hafa gullið. Það yrði ekkert silfur eða brons í þetta skipti, eins og við höfum stundum orðið að láta okkur nægja á Ólympíuleikum og verið býsna ánægð með, nú mundum við hirða gullið. Þessi vinnubrögð þar sem um mitt sumar er komið með samning sem Alþingi kollvarpar í öllum grundvallaratriðum, ríkisstjórnin fer síðan með samninginn til viðsemjendanna og fellst í meginatriðum á að þynna út alla þá fyrirvara sem þar eru og kemur með frumvarp og segir: Þetta er enn betra en það sem við vorum með í sumar. Þetta er auðvitað ótrúlegur kapítuli, alveg ótrúlegt vinnulag og alveg ótrúlegt að láta bjóða sér þetta af hálfu þeirra sem stóðu að samningagerðinni.

Við skulum aðeins rifja þessa sögu upp, hún verður aldrei sögð nægilega oft. Á sínum tíma var gengið til þessara samningaviðræðna eins og við vitum. Það var boðað einhvern tíma þegar aðeins var liðið á sumarið að fram undan væri glæsileg niðurstaða, menn sáu það fyrir sér að sögn að fram undan væri glæsileg niðurstaða sem Íslendingar gætu verið stoltir af. Málið var auðvitað lagt upp með tilteknum hætti, frumvarpið sem við munum eftir var auðvitað hvorki fugl né fiskur í þeim skilningi að þar var ekki um miklar handfestur að ræða fyrir okkur sem þjóð. Stefnumörkunin var ákaflega skýr, það átti að ganga að afarkostum Breta og Hollendinga hvað sem tautaði og raulaði.

Þá gerðist það að Alþingi lét ekki bjóða sér þetta, meiri hluti alþingismanna var greinilega kominn á þá skoðun og eins og hæstv. utanríkisráðherra hefur síðar staðfest var ekki lengur pólitískur meiri hluti fyrir þeirri afgreiðslu sem hæstv. ríkisstjórn lagði upp með. Það vantaði ekki að þessum samningi væri hælt á hvert reipi. Það vantaði ekki að þeir sem töluðu fyrir samningnum virtust tala af mikilli sannfæringu og miklum sannfæringarkrafti um að þetta væri það besta hugsanlega, besta mögulega sem hægt væri að hugsa sér í samningum við þessar þjóðir og mikil áhersla var lögð á að samningurinn yrði lögfestur sem fyrst. Ég hygg að það sé örugglega einsdæmi með samning af þessu tagi sem í eru sannarlega fólgnir svo miklir hagsmunir — við teflum hér um kannski upp undir langleiðina af árlegri landsframleiðslu okkar, það er stærðargráðan í málinu — að ætlunin var síðan að sýna ekki Alþingi, sem hins vegar var beðið um ríkisábyrgð fyrir hönd þjóðarinnar, þennan samning. Eins og hér hefur verið rifjað upp nokkrum sinnum í dag var það leki í blöðunum sem varð til þess að samningurinn var að lokum birtur opinberlega.

Muna menn ekki óðagotið sem var í kringum þetta mál allt saman þegar svo gríðarlega lá á að ljúka því, af því að annars færi hér allt í bál og brand? Annars væri ekki hægt að lækka vexti eða tryggja að lánshæfismatið batnaði, annars væri ekki hægt að fá aðgang að lánsfé frá útlöndum og við sjáum síðan niðurstöðuna. (Gripið fram í: Gengið mundi styrkjast.) Gengið mundi auðvitað styrkjast. Ekkert af þessu hefur ræst. Gengið hefur heldur verið að veikjast. Við höfum að vísu fengið vilyrði um lánin síðar meir og okkur hefur verið sagt síðar að ekkert hafi hangið á spýtunni gagnvart Icesave. Við vitum að vextirnir hafa rétt drattast niður um hálft prósentustig og þannig mætti áfram telja. Allt þetta óðagot, allt sem var sagt við okkur í upphafi virðist hafa verið algjörlega innistæðulaust.

Ég tók eftir því líka að á þessum tíma gerðu menn ákaflega lítið úr allri þeirri gagnrýni sem fram kom í upphafi málsins gagnvart þessum samningi. Samningagerðin fór þannig fram að því er virtist og eftir því sem hæstv. fjármálaráðherra greindi okkur frá, að einhverjar almennar óljósar þreifingar fóru fram milli manna og hér í þingsalnum var okkur sagt frá því að ég hygg á miðvikudegi að ekkert væri í rauninni að gerast í þessum efnum, en á föstudegi var bara fullbúinn samningur, klár og kvitt, búið að ljúka málinu. Þessar þreifingar hafa því auðvitað verið eitthvað meira en litlar.

Við tökum líka eftir því þegar verið er að ræða þessi mál núna að það eru nákvæmlega þeir sömu sem gera ákaflega lítið úr gagnrýninni sem uppi er á þetta frumvarp og þeir sem höfðu hæst og tóku stærst upp í sig þegar verið var að ræða frumvarpið í upphaflegri mynd þess. Þegar hæstv. ríkisstjórn lagði frumvarpið sitt fram í sumar var strax hringt mörgum viðvörunarbjöllum. Það var alveg sama hvað var nefnt í þessu sambandi, fullveldisákvæðið, það var bara nánast talið hlægilegt að nefna það, eða ákvæðið sem síðar var kennt við Ragnar Hall. Menn töldu alveg fráleitt að slíkt skipti nokkru máli. Menn voru síðan gerðir afturreka, Alþingi komst að annarri niðurstöðu og við sjáum núna að allt það sem við gagnrýndum þá átti illu heilli við rök að styðjast.

Ég ætla að taka aðeins fyrir fullveldisákvæðið og friðhelgisákvæðið, sem var töluvert mikið rætt hér á fyrstu stigum þessa máls. Þegar það mál var fyrst nefnt til sögunnar var það þannig að hver spekingurinn á fætur öðrum sem kom fram af hálfu ríkisstjórnarinnar taldi að þetta væri mál af því taginu að fullkomins misskilnings gætti, svona ákvæði væri bara inni í öllum samningum. Þrátt fyrir það að nánast á sama tíma hefði verið gerður lánasamningur milli Íslands og Norðurlandanna þar sem sérstaklega var tekið fram að eignir utanríkisráðuneytisins utan Íslands og þær eignir sem nauðsynlegar eru starfsemi íslenska ríkisins séu undanskildar friðhelgisafsalinu. Engar slíkar takmarkanir var að finna í Icesave-samningunum og auðvitað var það þannig að taka þurfti á málinu því ljóst var þegar þessi mál voru skoðuð nánar að þetta voru allt saman galopin ákvæði.

Er ekki skrýtið að það skuli vera nákvæmlega sama viðhorfið sem nú lætur á sér kræla þegar verið er að gagnrýna ýmsa þætti þessa máls? Eins og til að mynda þegar prófessor emerítus Sigurður Líndal vekur athygli á því að kannski sé nú þannig með þetta frumvarp, eins og það liggur nú fyrir, að verið sé að ganga á stjórnarskrárbundinn rétt okkar, það sé verið að framkvæma hér mikið valdaafsal og þingið sé að afsala sér stjórnarskrárbundinni skyldu sinni varðandi fjárveitingarvaldið, þá er það afgreitt með snyrtilegum hætti út af borðinu. Það kemur hér þekktur maður, Daniel Gros, og vekur athygli á ákveðnum þáttum, sem ég ætla ekki að fara efnislega yfir, þeir hafa verið raktir hér fyrr í umræðunni, og með nákvæmlega sama hætti, með kæruleysislegu yfirbragði, hrokafullu, pínulítið forhertu, er þessu sjónarmiði ýtt út. Hér í sumar þurfti með öðrum orðum, virðulegi forseti, atbeina Alþingis að þessu máli.

Það hefur verið sagt sem svo að þingið hafi í raun og veru tekið völdin af ríkisstjórninni. Kannski er þetta dálítið ofmælt, það er auðvitað þannig að þegar mál er komið inn í þingið hefur þingið fullt vald á því, en það voru hins vegar, eins og við vitum, hinar pólitísku aðstæður sem gerðu það að verkum að ríkisstjórnin varð að láta af upphaflegum málatilbúnaði sínum. En það er eins og hefur verið sagt að menn hefna þess stundum í héraði sem hallast á Alþingi og ríkisstjórnin greip til þess úrræðis strax og Alþingi hafði lokið lagasetningu sinni að taka málið í sínar hendur, fara með það fyrir viðsemjendur okkar og gera grundvallarbreytingar á ýmsum þeim fyrirvörum sem Alþingi hafði þegar ákveðið.

Þetta er auðvitað mjög alvarlegt mál, sérstaklega í ljósi þess að hér er um að ræða verknað sem ekki hefur bara verið drýgður einu sinni heldur tvisvar í einu og sama málinu. Gleymum því ekki að það var Alþingi sjálft sem 5. desember árið 2008 samþykkti ályktun sem byggðist á hinum svokölluðu Brussel-viðmiðum. Gleymum því ekki að Alþingi bjó þannig til leikreglurnar og reyndar samningsumboðið sem samninganefnd á hverjum tíma hefði til þess að vinna eftir. Það var enginn sem gat í raun og veru tekið sér það vald sem Alþingi sjálft hafði markað með þessum hætti, framkvæmdarvaldið hafði ekki heimild til þess. Það þarf í raun og veru ekki vitnanna við.

Það má auðvitað alltaf segja sem svo að þetta sé bara hin dæmigerða stjórnarandstöðugagnrýni og ekkert sé á bak við þetta en þá ætla ég að kalla hér til fulltingis fyrrverandi aðstoðarmann hæstv. utanríkisráðherra, Kristrúnu Heimisdóttur, sem segir í grein í Morgunblaðinu þann 13. ágúst sl., með leyfi virðulegs forseta:

„Ljóst er af erindisbréfi að verkefni nýrrar samninganefndar um Icesave var aldrei skilgreint til fulls í samræmi við ályktun Alþingis. Talsmenn Íslands geta vel, með skírskotun til Brussel-viðmiðanna, útskýrt fyrir umheiminum að landið virði alþjóðlegar skuldbindingar svo fremi um þær sé samið á sanngjarnan hátt sem virði réttarríkið og fordæmislausar aðstæður Íslands.“

Það sem aðstoðarmaðurinn er í raun og veru að segja hér er að ríkisstjórnin virti að vettugi þær leikreglur sem Alþingi setti, Brussel-viðmiðin sjálf. Það sem er svo alvarlegt er að þrátt fyrir að það hafi verið áréttað af Alþingi hér í sumar, þrátt fyrir að Alþingi hafi séð sig knúið til að setja með beinum og afdráttarlausum hætti skírskotun til Brussel-viðmiðanna inn í lagarammann eins og hann var samþykktur fyrr á þessu ári þá virti ríkisstjórnin aftur þessar leikreglur að vettugi. Virti lögin að vettugi og fór til útlanda, gekk frá samningum, hvarf frá mikilvægum fyrirvörum, þynnti þá út og kom síðan með þá í nýjum búningi fyrir Alþingi og ætlaðist til þess að Alþingi samþykkti þetta umyrðalaust.

Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt, þetta mál hefur fengið mjög mikla umfjöllun á Alþingi. Þetta mál hefur tekið gríðarlega mikinn tíma. Þetta mál hefur tekið mikinn tíma í þingnefnd, og þingnefndum í rauninni því að það er ekki bara svo að fjárlaganefnd hafi farið höndum sínum yfir þetta mál, það hafa utanríkismálanefnd, allsherjarnefnd og efnahags- og skattanefnd gert og kannski fleiri nefndir þingsins. Við aðrir þingmenn höfum síðan tekið fullan þátt í umræðunni til þess að fjalla um þessi mál efnislega. Ég var að vísu svo heppinn að sitja í fjárlaganefnd við afgreiðslu málsins rétt áður en það kom hingað inn til 2. umr. og ég var líka í þeirri stöðu að hafa setið í fjárlaganefnd á milli 2. og 3. umr. þegar hið fyrra Icesave-frumvarp var til umræðu þannig að ég átti þess kost að fara efnislega nokkuð vel yfir ýmsa þætti málsins.

Ég ætla að segja það að mjög eðlilegt er að þetta mál, ekki bara eðlis síns vegna heldur vegna þess hvernig að því var staðið, fái þessa miklu meðhöndlun og miklu umfjöllun innan vébanda Alþingis. Gleymum því ekki að þetta mál er gríðarlega stórt og mikið að umfangi. Hér eru gífurlegir hagsmunir í húfi, fjárhagslegir hagsmunir sem munu ráða miklu um það hvernig okkur gengur að byggja hér upp góð lífskjör á komandi árum. Þetta er ekki eini þátturinn sem er ráðandi í þeim efnum en þetta er hins vegar þýðingarmikill þáttur í þeim efnum.

Auðvitað er það þannig að þegar mál af þessari stærðargráðu og þessu tagi kemur illa undirbúið inn í Alþingi, kemur þannig inn í Alþingi að ljóst er að meiri hluti Alþingis er á móti því, eins og kom hér fram í sumar, er ekki við öðru að búast en að það taki langan tíma að koma því í gegn. Að vísu hefði það greitt töluvert fyrir málinu ef stjórnarliðið hefði fallist fyrr á þær ábendingar sem stjórnarandstaðan kom með við meðhöndlun málsins og ekki bara stjórnarandstaðan heldur fjöldamargir umsagnaraðilar, fræðimenn og ýmsir sem sáu sig knúna til þess að taka til máls og hafa skoðun á málinu.

Auðvitað hefði það greitt fyrir málinu ef það hefði ekki verið þessi stöðuga fyrirstaða af hálfu meiri hluta Alþingis í hvert skipti sem því var hreyft að reyna að setja meiri fyrirvara, sterkari skilmála, traustari stoðir til þess að treysta íslenska hagsmuni. Það hefði auðvitað greitt fyrir málinu. Það hefði væntanlega gert það að verkum að málið hefði komist hraðar í gegnum þingið. Gleymum því ekki að þessu máli var einfaldlega hafnað eins og það var lagt fyrir Alþingi. Alþingi hafnaði í raun og veru málinu. Það gjörbreytti því og það var varla hægt að þekkja málið frá upphaflegum búningi og í rauninni ekki hægt. Ég orðaði það þannig við 3. umr. málsins að það mætti finna einstakar samtengingar, málfræðilegar samtengingar eins og „og“ og „en“, sem hefðu bæði sést í upphaflega frumvarpinu og því plaggi sem síðar varð að lögum frá Alþingi.

Og það er ekki bara það að við stjórnarandstæðingar höfum verið þeirrar skoðunar að þetta hefði breytt málinu og raunar verið til bóta. Sjálfur hæstv. fjármálaráðherra, flutningsmaður málsins, sagði á Alþingi þegar málið var afgreitt á sínum tíma, með leyfi virðulegs forseta:

„Og það skal vera alveg skýrt af minni hálfu að ég tel að sú umgjörð sem Alþingi er hér að setja utan um þetta mál sé til bóta, hún styrki stöðu okkar, sérstaklega þegar eða ef á það reynir að virkja þurfi endurskoðunarákvæði samninganna, þá sé það styrkur að við höfum sett þessa hluti í efnahagslega og að hluta lagalega umgjörð sem er málefnaleg og sanngjörn, sem á að vera hægt að útskýra og réttlæta gagnvart viðsemjendum okkar.“

Virðulegi forseti. Hér liggur það fyrir. Flutningsmaður málsins segir að lokaafgreiðsla þess hafi orðið til þess að styrkja grundvöll þess og gera það að verkum að það væri betur tækt til þess að verja íslenska hagsmuni heldur en upphaflega frumvarpið. Þá hefði maður gert ráð fyrir því að þetta mál yrði afgreitt þannig af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem sjálf hafði sagt, eða 1. flutningsmaður málsins, að það væri mun betra í þeim búningi. Þá hefði maður gert ráð fyrir að ekki þyrfti að ganga eftir því að hæstv. ríkisstjórn stæði í lappirnar í þessu máli og gengi eftir því að Hollendingar og Bretar féllust á þau viðmið, þau skilyrði sem Alþingi setti. Við gleymum því ekki að þau viðmið og skilyrði voru í anda Brussel-viðmiðanna sem Alþingi samþykkti 5. desember árið 2008. Ekki frumvarp hæstv. ríkisstjórnar eins og það var upphaflega lagt fram, heldur það sem hér var reynt að setja á blað með þeim fyrirvörum sem gerðir voru við ríkisábyrgðina sjálfa.

Virðulegi forseti. Maður hefði gert ráð fyrir því í ljósi alls þessa að þess hefði verið gætt að koma ekki heim með mál sem vænta mætti að skapaði miklar deilur, eins og þær sem orðið hafa um málið í þeim búningi sem það er lagt fram í. Menn hefðu átt að vera brenndir af þeim viðtökum sem þeir fengu þegar þeir komu inn í þingið með lélegt mál, sem var í hróplegu ósamræmi og andstöðu við þau viðmið sem Alþingi hafði sett. En það gerðist samt sem áður, menn fóru til þessara viðræðna og komu aftur með mál sem þeir máttu auðvitað vita að gæti aldrei farið þegjandi og hljóðalaust í gegnum Alþingi og að Alþingi hlyti að ætlast til þess að það fengi vandaða efnislega meðferð. Þrátt fyrir að málið hafi verið svo mjög til umræðu fyrr á þessu ári, var hér komið með nýtt mál inn í þingið, glænýtt mál, gjörbreytt mál, sem hlaut að kalla á það að fara þyrfti yfir það með rækilegum hætti, kalla til fjöldamarga aðila o.s.frv. Við höfðum ástæðu til þess að ætla að þannig yrði staðið að málinu.

Þá bregður svo við að þegar málið er afgreitt frá hv. fjárlaganefnd til 2. umr. er það gert í mikilli ósátt. Mikið ósætti var á milli meiri hluta og minni hluta. Gagnstætt því sem var í sumar eða haust þegar alla vega var leitast við í þingnefndinni að reyna að ná einhverju pólitísku samkomulagi í veigamiklum málum þó að það hafi ekki tekist að öllu leyti. Fjárlaganefnd Alþingis reyndi á þeim tíma að fara yfir málin og gera þær breytingar sem nauðsynlegar voru taldar, til þess að um málið gæti náðst meira samkomulag en ella hefði stefnt í. Nú var það ekki gert. Nú var einfaldlega sagt: Ja, það er ekkert um að semja, málið er svona. Og öllum að óvörum var málið afgreitt úr fjárlaganefnd án nokkurra breytinga.

Gáum að einu. Það er ekki einu sinni orðið við þeirri sjálfsögðu beiðni sem kom fram um að kalla hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra fyrir nefndina. Það er auðvitað frekar óvanalegt að slík beiðni komi fram, en það var hins vegar fullt tilefni til þess. Hæstv. ráðherrann fyrrverandi hafði sett fram sjónarmið sín og sýn á þetta mál með þeim hætti að mikilvægt var að reyna að kalla eftir viðhorfum hennar. Hæstv. fyrrverandi ráðherra sagði sem svo að Íslendingar hefðu farið til þessara viðræðna eins og sakamenn, en það voru auðvitað ekki við sem vorum sakamennirnir, það voru þeir sem brutu á okkur. Það voru Hollendingar og Bretar sem beittu okkur óréttmætum þvingunum hvar sem þeir gátu komið því við og réðust á okkur þar sem við áttum síst von á og gerðu okkur enn erfiðara fyrir í þeim þrengingum sem við vorum í á síðastliðnu hausti.

Síðan er það sérstakt viðfangsefni að velta fyrir sér þeim trakteringum sem efnahags- og skattanefnd þingsins fékk við þessa afgreiðslu. Efnahags- og skattanefnd fékk eðli málsins samkvæmt þetta mál til umsagnar. Það var auðvitað ekki gert bara af einhverri fordild, eins og ég nefndi hér áðan í ræðu minni, það var gert vegna þess að efnahags- og skattanefnd á að hafa aðra yfirsýn og sýn á málin heldur en fjárlaganefndin og ætti þess vegna að geta komið með gagnlegar ábendingar um það sem betur mætti fara í samningagerðinni og frumvarpinu sjálfu. Og það vantaði ekkert á það. Fínar efnislegar umsagnir komu í einum fjórum álitum, ef ekki fimm, þar sem glögglega kom fram að í efnahags- og skattanefnd hafa menn haft miklar áhyggjur af ýmsu því sem þarna er að gerast. Við vissum auðvitað að Samfylkingin mundi ekki koma með mikla gagnrýni á þetta frumvarp, það kemur engum á óvart, það hefur aldrei gerst. Samfylkingin hefur alltaf verið tilbúin til þess að lúta hátigninni og beygja sig í duftið í þessu máli. Þar hefur aldrei verið neina fyrirstöðu að finna. Alls staðar þar sem sveitin er sem styst vill ganga í því að verja hagsmuni okkar gagnvart kröfuhörku Breta og Hollendinga þar hefur Samfylkingin skipað sér.

Ég átti hins vegar von á að hlustað yrði eftir áliti til að mynda þeirra hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Lilju Mósesdóttur, þingmanna meiri hlutans í efnahags- og skattanefnd, sem gætu nú kannski haft eitthvað um málið að segja stöðu sinnar vegna. Látum nú vera þó að hv. þingmenn í fjárlaganefnd hefðu talið að það væri ekki ómaksins vert að hlusta á raddir stjórnarminnihlutans úr því að búið var að taka þá afstöðu að kýla málið í gegn hvað sem það kostaði og hvort sem mönnum í stjórnarandstöðunni líkaði það betur eða verr. En ég hafði nú satt að segja átt von á því, þótt ekki væri nú nema kurteisinnar vegna, að þessi álit yrðu tekin fyrir, t.d. til að fara yfir þær efnislegu ábendingar sem komu fram í áliti 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar sem hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson skipa. Þar er að finna ýmislegt afar athyglisvert. Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna í fáein atriði sem koma fram í þeirri álitsgerð.

Það fyrsta sem ég vil nefna er umfjöllun þeirra um vinnubrögð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er auðvitað mjög athyglisverð ábending. Hér er ég ekki að vitna til þess að oft hefur verið rætt um hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi verið að reyna að beita okkur hörðu, hafi verið einhvers konar handrukkari fyrir Breta og Hollendinga. Við skulum láta það liggja á milli hluta að sinni, en ég ætla að vekja athygli á öðru sem kemur fram í áliti þessara hv. þingmanna 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar, þar sem hreinlega er vikið að — hvað á að segja? — annarlegum sjónarmiðum innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar sem nánast er sagt að sjóðurinn vinni ekki verk sín eins og honum ber að vinna, fræðilega eða tæknilega.

Í áliti háttvirtra nefndarmanna sem ég hef vísað til segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Í nóvember 2008 mat AGS að 240% skuldahlutfall væri „augljóslega óviðráðanlegt“ (clearly unsustainable). Ári síðar telur sjóðurinn að 310% hlutfall sé viðráðanlegt. Þessi mótsögn í mati sjóðsins er athyglisverð í ljósi þess að íslenska ríkið gæti ekki ábyrgst lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu ef skuldaþolsmörkin frá því í nóvember 2008 héldu og væru enn 240%.“

Síðan segja hv. nefndarmenn, sem er mjög athyglisverður punktur sem ég hef ekki heyrt áður, en hlýtur að vera þess eðlis að hæstv. ríkisstjórn verður að svara þessu í það minnsta. Með leyfi virðulegs forseta:

„Það er ekki hægt að útskýra þessa stefnubreytingu AGS nema með þeim hætti að Bretar og Hollendingar hafi beitt pólitískum þrýstingi í stjórn AGS til að tryggja að íslenska ríkið taki á sig Icesave-skuldbindingarnar.“

Hvað er hér verið að segja? Er verið að segja að Bretar og Hollendingar hafi andað niður um hálsmálið á reiknimeisturum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að þeir hafi verið nánast látnir koma fram með aðrar skýringar og telja að við séum líklegri til að standa undir hærra skuldahlutfalli heldur en lægra skuldahlutfalli?

Þessi ábending sem kemur hér fram af hálfu meirihlutaþingmanna í efnahags- og skattanefnd er auðvitað með þeim hætti að ég get ekki séð að hæstv. ríkisstjórn geti annað en brugðist við þessu. Það getur ekki verið annað en svo að ríkisstjórnin taki þessi mál upp, þessa ábendingu frá þingmönnum sínum varðandi vinnubrögð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, því ef vinnubrögðin eru þau að verið sé að fikta og kukla í talnaefni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna pólitísks þrýstings, er þetta ... (Gripið fram í: Eftir þörfum.) Eftir þörfum, þá er það auðvitað enn þá alvarlegra. Þá er trúverðugleiki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gjörsamlega horfinn.

Ég ætla út af fyrir sig ekki að taka undir það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn láti hræra í sér með þessum hætti, en það er hins vegar athyglisvert að þessu er teflt hér fram og það sem er enn þá athyglisverðara er að ríkisstjórnin lætur eins og hún hafi ekki tekið eftir þessu og stjórnarmeirihlutinn í fjárlaganefnd hirðir ekki um að fara yfir þessi mál, hann gefur okkur hinum sem sátum á þessum fundum í fjárlaganefnd ekki tækifæri til að ræða þetta alvarlega mál sérstaklega við fulltrúa Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd, þannig að við gætum fengið upplýsingar og útskýringar um hvað hér búi að baki.

Fleiri atriði í þessu eru líka mjög athyglisverð. Í áliti 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar er einnig talað um að skuldahlutfall sem sé langt yfir eðlilegum þolmörkum þýði rýrari lífskjör, vegna þess að draga þurfi úr neyslunni innan lands, annars takist ekki að auka afganginn af vöruskiptajöfnuðinum, sem sé forsenda fyrir því að standa undir greiðsluskuldbindingum okkar af þessum lánum og öðrum erlendum lánum. Þau vekja líka athygli á því að til þess að þetta takist og það þurfi að rýra lífskjörin, til að mynda með því að halda genginu lágu, muni það auka hættuna á landflótta.

Þau vekja jafnframt athygli á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að afgangurinn af vöruskiptajöfnuðinum verði á bilinu 123 til 172 milljarðar kr. á árunum fram til 2014, en til samanburðar nemi afgangur af vöruskiptajöfnuði nú, þrátt fyrir lágt gengi og mikinn kraft í útflutningi, ekki nema 44 milljörðum, sem sé þá kannski svona þriðjungurinn af því sem áætlað er að verði stöðugur afgangur af vöruskiptajöfnuði fram til ársins 2014.

Síðan segir:

„Þjóðarbúið mun ekki standa undir skuldsetningu sem nemur í ár um 310% af VLF nema þessi afgangur gangi eftir og hægt verði að endurfjármagna erlendar skuldir.“

Þetta sem hér hefur verið sagt er auðvitað mjög áhugavert og hefði nú verið ómaksins vert fyrir okkur sem sátum þá í fjárlaganefnd að eiga orðastað við hv. þingmenn og aðra þá þingmenn sem skiluðu frá sér mjög efnisríkum álitum sem ég get ekki tímans vegna farið yfir, en gæti kannski gert í síðari ræðum ef ég tek síðar til máls. (Gripið fram í: Er það nauðsynlegt?) Ég tel það nokkuð nauðsynlegt, já.

Nokkuð hefur verið rætt um þessa efnahagslegu fyrirvara sem Alþingi setti hér við afgreiðslu málsins nú í haust. Í því sambandi vil ég vekja athygli á því hvernig þessir fyrirvarar voru í raun og veru búnir til. Þeir komu má segja í tveimur lotum. Fyrst við 2. umræðu málsins voru settir veigamiklir efnahagslegir fyrirvarar við málið sem Alþingi taldi þá nauðsynlegt að setja inn til þess að tryggja betur stöðu Íslands í ljósi þeirra samninga sem ríkisstjórnin vildi gera út af Icesave-málinu. En gleymum því ekki að hluti þessara fyrirvara var síðan vísvitandi skilinn eftir, vegna þess að menn kusu að ræða þau mál sérstaklega á milli 2. og 3. umræðu málsins. Við 3. umræðu málsins var með pósitívum hætti, með ákveðnum hætti, ákveðið að bæta við og styrkja þessa efnahagslegu fyrirvara enn frekar og það var gert með tvenns konar hætti.

Í fyrsta lagi segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 96/2009 er það skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá. Enn fremur er tekið fram að lánveitendur samkvæmt lánasamningum frá 5. júní 2009 þurfa að viðurkenna að skuldbindingar tryggingarsjóðsins séu háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgð samkvæmt lögunum.“

Með öðrum orðum, í þessum fyrirvörum stóð ekkert um að það ætti að kynna þetta og síðan hefði framkvæmdarvaldið heimild til þess að rjúfa fyrirvarana og ganga á bak þeim fyrirheitum sem gefin voru með lagasetningu Alþingis. Öðru nær, heimildin laut að því að taka þessi mál upp, kynna þau fyrir viðsemjendunum vegna þess að þetta væru þau lágmarksskilyrði sem Ísland treysti sér til að samþykkja til þess að veita ríkisábyrgð fyrir þessari upphæð, sem er svo óljós og við vitum ekki og munum ekki vita fyrr en í lok dagsins hver hún verður þegar upp er staðið.

Með leyfi virðulegs forseta:

„Greiðsluskylda lánasamninganna skal aldrei vera meiri en hámark ríkisábyrgðar, sbr. 3. mgr. Nú virðist á einhverjum tíma stefna í að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum verði ekki að fullu greidd í lok lánstímans vegna hinna efnahagslegu viðmiða og skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.“

Hér er um að ræða þetta fræga sólarlagsákvæði. Það er alveg ljóst mál að við 2. umr. málsins settum við tiltekna efnahagslega fyrirvara sem lutu að tengingunni við hagvaxtaraukninguna en hér er þá gengið út frá því að það sé á okkar valdi að semja um það í lok samningstímans 2024, ef við svo kjósum, að greiða þá upphæðina sem hugsanlega stendur út af að fullu.

Í því frumvarpi sem við ræðum nú er horfið frá þessu og þetta er auðvitað gífurlega veigamikill þáttur. Það er með öðrum orðum verið að galopna heimildina. Það er verið að segja sem svo: Við borgum þetta á einhverjum löngum tíma með Visa- og Euro-raðgreiðslum fram í tímann, en það er ekki verið að takmarka greiðsluna. Það er þetta sem er hið alvarlega í málinu.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það er með ólíkindum að einhver skuli treysta sér til þess, þrátt fyrir að þetta blasi svona við, að halda því nú fram að við getum borið saman þá efnahagslegu fyrirvara sem við samþykktum í lögunum fyrr á árinu og þá fyrirvara sem frumvarpið felur í sér. Þetta er auðvitað tvennt ólíkt og alls ekki sambærilegt á nokkurn hátt.

Virðulegi forseti. Hér fyrr í umræðunni vakti ég aðeins athygli á því í andsvari að í umsögn sinni um þetta mál gerir Seðlabankinn ráð fyrir því að raungengi íslensku krónunnar verði mjög lágt á næstu árum, sem leiði til verulegs afgangs af vöru- og þjónustuviðskiptum. Ég hef áður bent á að samkvæmt mati Seðlabankans verður vöruskiptaafgangurinn fram til ársins 2014 á annað hundrað milljarðar króna á ári sem er ótrúleg tala og nánast sama tala og útflutningsverðmæti íslensks sjávarútvegs, eða slagar a.m.k. upp í það. Nú er það auðvitað svo að enginn getur spáð svo langt fram í tímann. Forsendan virðist þá vera sú að hér verði a.m.k. fram til þess tíma mjög lágt gengi. Þetta er allt annað en hæstv. ríkisstjórn hefur reynt að telja okkur trú um. Hæstv. ríkisstjórn hefur verið að segja okkur að einmitt Icesave-samningurinn og lyktir hans kunni að verða ein meginstoð þess að styrkja gengi íslensku krónunnar.

Nú liggur hins vegar fyrir að forsendan fyrir þessum samningi og mat Seðlabankans á honum er þannig að þar er gert ráð fyrir því að raungengið verði mjög lágt og það getur auðvitað skýrt ýmislegt í sambandi við það sem við tölum hér um.

Mikið hefur verið talað um það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi tekið okkur í einhvers konar pólitíska gíslingu og það er athyglisvert út af fyrir sig að velta því máli fyrir sér. Það er hins vegar þannig að þetta er eins og heit kartafla, það vill enginn halda á henni, það vill enginn kannast við hana, enginn vill viðurkenna að hafa nokkurn tíma notað þetta óþverralega Icesave-mál til þess að koma á okkur pólitísku klofbragði og fella okkur þannig að við getum ekki staðið upp aftur.

Jón Sigurðsson, formaður samninganefndar um Norðurlandalánin, sem tengjast þessu Icesave-máli, sagði í viðtali við Ríkisútvarpið 29. júlí að engin skilyrði væru fyrir því í lánasamningum við Norðurlönd að Alþingi samþykkti Icesave. Þetta sagði formaður nefndarinnar, þaulreyndur samningamaður, engin skilyrði fyrir Norðurlandalánunum. Tveimur vikum síðar sagði hæstv. forsætisráðherra í ræðu hér á Alþingi að það væri alveg skýrt og klárt að norrænu lánin væru ekki tengd við Icesave.

En þegar hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir þessu illræmda frumvarpi sínu um Icesave fjallaði hann um afleiðingar þess að hafna frumvarpinu og sagði, með leyfi virðulegs forseta:

„Hvaða afleiðingar hefur það?“ — sem sagt að hafna frumvarpinu, spyr hæstv. fjármálaráðherra og svarar: — „Það strandar öllu aðgerðaplaninu sem nú er unnið eftir og snýr endurreisn íslensks efnahagslífs, það strandar því öllu. Það liggur fyrir, rækilega skjalfest, að samstarfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og afgreiðsla gjaldeyrislána þaðan strandar. Það liggur rækilega skjalfest fyrir að gjaldeyrislánafyrirgreiðsla frá hinum Norðurlöndunum strandar sömuleiðis.“

Nú hefur það gerst að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, sá franski, hefur hafnað þessu. Hann hafnaði þessu í bréfi til einstaklinga sem höfðu frumkvæði að því að óska eftir einhverjum viðbrögðum. Það liggur þá fyrir frá sjálfum formanni samninganefndar um Norðurlandalánin að þau voru aldrei í uppnámi út af þessu, það er a.m.k. skoðun formannsins sem ætti nú gleggst um þetta að vita.

Þess vegna verð ég að segja það, virðulegi forseti, að allt þetta mál, allur þessi farsi sem ríkisstjórnin hefur búið til í kringum þetta mál virðist vera innistæðulaus og til þess eins fallinn að reyna að búa til einhvern hræðsluáróður (Forseti hringir.) til þess að fá menn til að samþykkja þetta mál svo illa undirbúið sem það er og svo freklega sem það er undirbúið (Forseti hringir.) með þeim hætti að fara á svig við vilja Alþingis frá því í haust.