Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 19:10:09 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni hans ágæta svar og get tekið undir að svo virðist sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi opinberað sig sem verkfæri í þágu einstakra stjórnvalda eða ríkjasambanda. Þar ber að sjálfsögðu helst að nefna að Evrópusambandið hefur grímulaust beitt sjóðnum fyrir sig gagnvart Íslandi og tvær höfuðþjóðir Evrópusambandsins, Bretar og Hollendingar, hafa notað tækifærið líka.

Svolítið hefur verið rætt um grein Sigurðar Líndals varðandi stjórnarskrána. Þar sem hv. þingmaður er öllu reynslumeiri en ég í þingstörfum væri gaman að vita hvort hann er sammála mér um það að í ljósi þess að ekki má ríkja vafi um það hvort ákvarðanir Alþingis eða aðrar ákvarðanir ríkisvaldsins brjóti stjórnarskrá væri eðlilegt að þær nefndir sem hér eru ræddar, utanríkismálanefnd, fjárlaganefnd, efnahags- og skattanefnd og væntanlega allsherjarnefnd líka fjölluðu sérstaklega um þetta mál og kölluðu til sín þá sérfræðinga sem nauðsynlegt er að kalla til?