Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 19:23:49 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði talið langeðlilegast að á Norðurlandaráðsþinginu í haust sem bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra sóttu, hefðu hæstv. ráðherrar tekið þessi mál upp, ekki bara í prívatsamtölum við forsætisráðherra og fjármálaráðherra þessara landa, Norðurlandanna, heldur á vettvangi Norðurlandaráðsþingsins sjálfs þar sem þetta mál hefði fengið þá athygli sem því bar.

Því miður gerðu hæstv. ráðherrar það ekki. Þeir kusu bara gamla vinasnakkið „kære nordiske venner“, en formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, tók þetta mál upp og uppskar hann t.d. stuðning frá þessum hæstv. ráðherrum ríkisstjórnar Íslands? Nei, að sjálfsögðu ekki. Þeir þögðu eins og þeir framast gátu í stað þess að taka til varna og hjálpa til við að sækja okkar rétt gagnvart Norðurlöndunum. Það er auðvitað mjög sérkennileg staða að annars vegar segi aðalsamninganefndarmaður okkar að Norðurlöndin hafi ekki tengt þetta Icesave-málinu en hins vegar komi þetta fram í plöggum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.