Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 21:11:26 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ósýnilegir hlekkir sem heita flokksbönd. Menn verða að hlíta ákveðnum reglum þó að þeir séu í hjarta sínu ósammála þeim. Þetta sáum við vel í umræðunni um Evrópusambandið í sumar hjá Vinstri grænum og þetta sáum við líka vel í umræðunni um Icesave hjá Vinstri grænum Þeir eru bara ekkert sáttir við þetta, þess vegna taka þeir ekki þátt í umræðunni. Flokksbönd eru mjög hættulegt fyrirbæri og ég skora á stjórnarliða alla saman, líka í Samfylkingunni, að líta út fyrir flokksböndin og sjá hvort þeir eru ekki að gera einhver voðaleg mistök sem geta kostað þjóð þeirra heilmikið. Þeir munu þá árið 2016 þurfa að horfa framan í bæði sjálfa sig í spegli og kjósendur sína og segja þeim af hverju í ósköpunum þeir gerðu þetta árið 2009, þ.e. ef málið skyldi fara illa. Svo getur vel verið að þetta gangi allt saman glimrandi vel og allir segi árið 2016: Hvað voru menn eiginlega að tala þarna árið 2009?