Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 21:39:10 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski ekki gott að átta sig á því hvað Seðlabankinn er að fara með þessu því að þessar tölur sem Seðlabankinn hefur lagt upp með um afgang af viðskiptajöfnuði eru fordæmalausar og geta ekki gengið upp nema með víðtækum innflutningshöftum, gjaldeyrishöftum og botnlaust lágu gengi krónunnar. Ef það er framtíðarsýn Seðlabankans er hún skelfileg og þá eru náttúrlega EES-samningurinn og Evrópusambandsaðildin farin út um gluggann því að við búum hér samkvæmt EES-samningnum við frjálst flæði fjármagns, vöru og þjónustu. Jafnan hjá Seðlabankanum gengur því ekki upp.

Kannski verðum við orðin að Kúbu norðursins ef ríkisstjórnin framfylgir efnahagsstefnu Seðlabankans eins og hún kemur fram í þessari spá þeirra. Það væru þá gjörðir ríkisstjórnarinnar sem gerðu það en ekki sú kvöð sem þeir sögðu alltaf að væri kvöð stjórnarandstöðunnar að við yrðum Kúba norðursins. Það eru þá aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans (Forseti hringir.) sem gera það að verkum að við munum ekki eiga (Forseti hringir.) fyrir dekkjum á bílana okkar.