Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 21:44:59 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þakkir til hv. þm. Þórs Saaris fyrir ræðuna sem hann flutti hér áðan. Hún var afar skýr og sterk og það hlýtur að vera okkur öllum umhugsunarefni að hann ber vaxtagreiðslurnar saman við innheimtan tekjuskatt. Þá höfum við nokkurn veginn fyrir augunum um hve gríðarlega hagsmuni er að ræða.

Ég vildi spyrja hv. þingmann í framhaldi af þessu hvort hann geti lagt mat á hvort það sé raunhæft að ríkið geti náð inn tekjum í stað þeirra sem glatast með þessum hætti til þess að standa undir opinberri þjónustu eða hvort hann sjái fyrir sér að þetta muni óhjákvæmilega leiða til þess að það þurfi að draga úr opinberum útgjöldum (Forseti hringir.) sem þessu nemur.