Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 21:49:32 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir afskaplega yfirgripsmikla og ágæta ræðu sem gott var að fylgja og það er gott þegar dagurinn er búinn að vera langur eins og í dag að þetta sé skýrt.

Mig langar að velta fyrir mér málsmeðferðinni af því að nú situr hv. þingmaður í fjárlaganefnd. Ég veit til þess að efnahags- og skattanefnd skilaði fjórum minnihlutaálitum í þessu máli þar sem fjárlaganefnd sendi vissulega erindi til þeirrar nefndar og bað um álit nefndarinnar. Það kemur manni svolítið á óvart að ekkert er fjallað sérstaklega um það í meirihlutaálitinu hvaða niðurstaða kom þar út. Var að mati þingmannsins einhver ástæða fyrir þessum, að því er virðist vera, asa í fjárlaganefndinni? Er að mati hv. þingmanns einhver dagsetning hér uppi á borðum, eins og stundum hefur verið fleygt fram í umræðunni um þetta mál, sem krafðist þess að þetta mál færi í gegnum þingið (Forseti hringir.) fyrr en síðar?