Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 21:51:53 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er sláandi að um þessar tölur sé að tefla þegar maður horfir á tekjuskattshlutfall og tekjuskattur hversu margra Íslendinga fer í að greiða eingöngu vaxtagreiðslurnar. Það er t.d. ákvæði í þeim lögum sem voru samþykkt á þinginu í sumar sem átti að taka á þessu í fyrirvörum Alþingis.

Þess vegna langar mig að nýta seinna andsvar mitt til þess að fá fram hjá hv. þingmanni hvernig umræðurnar voru um þetta í fjárlaganefnd. Hvernig var því eiginlega komið í gegnum nefndina að ekki væri fjallað á ítarlegri hátt um þessa afstöðu sem kemur að einhverju leyti fram í hinum fjölmörgu minnihlutaálitunum í efnahags- og skattanefnd? Ég er mikil áhugamanneskja um góða og öfluga stjórnsýsluhætti og ekki síst hjá þingnefndum Alþingis (Forseti hringir.) og við hv. þm. Þór Saari höfum margoft rætt um vinnubrögð Alþingis í þessum stól.