Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 22:44:23 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar titraði sem mest á stjórnarheimilinu og fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sagði af sér, að þá upplýsti þingflokksformaður Vinstri grænna, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, að það hefði verið þannig að þegar upphaflegu samningarnir voru kynntir hefði ekki nema lítill hluti ríkisstjórnarinnar lesið samningana.

Síðan hefur reyndar komið fram í ræðustól Alþingis og var mjög áhugavert að hlusta á ræðu hæstv. félagsmálaráðherra í fyrstu umferðinni þar sem hann taldi að það væri nauðsynlegt að skrifa undir samningana vegna þess að þeir væru þegar fallnir á efnahagslegu viðmiðunum, þá gætum við bara farið að semja upp á nýtt. Mig langar að spyrja hv. þingmann um hvort honum finnist þetta þá ekki hafa verið með þeim hætti að ríkisstjórnin hafi tekið þennan kúrs, þessa stefnu í þessu máli.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann um það hver sé tilfinning hans eða skoðun á því hvort það hafi einhvern tíma staðið til núna að það mætti (Forseti hringir.) breyta eða ræða þetta mál á einhverjum nótum vegna þess að eins og meðferðin hefur verið virðist mér það ekki hafa mátt.