Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 22:49:41 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:49]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er vissulega íhugunarefni, sérstaklega þegar það er tekið fram í greinargerðinni með því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram að frumvarpið feli í sér í öllum meginatriðum þá fyrirvara sem settir voru af Alþingi í ágúst. Fyrir liggur að hér hefur stjórnarandstaðan talið fram með fullgildum rökum áherslur sínar í því efni og leitt fram í bæði töluðu og rituðu máli og sýnt fram á að þessir fyrirvarar standast ekki nokkra skoðun. Það er ekki til of mikils mælst að forustumenn hæstv. ríkisstjórnar mæli með rökum á móti þeim sjónarmiðum sem stjórnarandstaðan heldur fram, í það minnsta þykir mér það lítilmannlegt af forustu ríkisstjórnarinnar að mæta ekki til þessarar umræðu, heldur sitja og pukra (Forseti hringir.) úti í horni. Ég vona að hv. þingmaður deili skoðun minni í þeim efnum.