Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 22:56:19 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þessa fyrirspurn. Ég hef spurt mig þeirrar spurningar upp á síðkastið hvort nú sé komin sú staða að þar sem það virðist vera upplýst að enginn einn sérstakur aðili hangi yfir með þeirri ógn að koma í veg fyrir að við fáum lán frá Norðurlöndum — því ekki virðast Norðurlöndin viðurkenna það og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn viðurkennir ekki heldur að hann hafi staðið einn í vegi fyrir þessu, enda endurskoðunin hafin — sé málið komið á þann rekspöl að nú gætum við í friði farið að vinna að okkar efnahagsmálum. Ég held að ríkisstjórnin ætti þá að einhenda sér í að koma fram með þau mál sem hún telur nauðsynleg og mikilvægust. Þar er auðvitað fjárlagafrumvarpið mikilvægast, tekjuhlið þess og atvinnuuppbyggjandi ráðstafanir, þ.e. að koma efnahagslífinu í gang. Ég held að við ættum að snúa okkur að því (Forseti hringir.) og geyma þetta mál því ég held að enginn þrýstingur sé á þessu máli.