Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 22:57:43 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil enn inna hæstv. forseta eftir því hvað standi til að halda þessum fundi lengi áfram. Ég bendi á að umræðan hefur staðið alllengi. Þingmenn hófu störf snemma í morgun og munu hefja störf næsta morgun. Eins og fram hefur komið í umræðunni er engin utanaðkomandi pressa á að ljúka þessu máli, engin efnisleg rök hafa verið færð fyrir því að eitthvað liggi á því. Því spyr ég hversu lengi forseti ætli að halda áfram.

Ég spyr líka hæstv. forseta, að gefnu tilefni vegna umræðunnar í dag, hvort af hálfu forsetadæmisins í þinginu sé með einhverjum hætti staðið í vegi fyrir því að hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna komist að til að tala. Þeir hafa ekki talað hér í dag. Til þess hafa þeir haft næg tækifæri, bæði í ræðum og andsvörum, en þeir hafa ekki sést í ræðustól. Ég velti fyrir mér hvort einhver brotalöm sé í (Forseti hringir.) skipulagi fundarstarfa sem geri það að verkum að þeir eigi kannski ekki kost á að tala hér.