Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 23:00:53 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að biðja hæstv. forseta að beita sér fyrir þremur málum. Í fyrsta lagi tek ég undir það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir sagði. Ég held að mikilvægt sé að skipa þennan hóp og senda vaska sveit af stað því fram hefur komið hjá þeim þingmönnum sem hafa verið erlendis á alþjóðlegum fundum, m.a. hv. þingmanni, að erlendir aðilar, m.a. Bretar og Hollendingar, vita ekkert hvað er að gerast hérna. Það er áhyggjuefni.

Í öðru lagi vil ég beina því til forseta að séð verði til þess að stjórnarþingmenn skýri og láti sitt álit í ljós á þessu mikilvæga máli. Það er með ólíkindum ef ríkisstjórnarflokkarnir ætla að láta nægja að einn til tveir tali í þessu stóra máli og þingmenn skýri ekki sína afstöðu. Það finnst mér mjög merkilegt.

Í þriðja lagi, frú forseti, vil ég ítreka að það stendur ekki á stjórnarandstöðunni að hingað inn komi mikilvæg mál sem varða fjárlög og annað. Við viljum gjarnan fá þau mál hingað inn þannig að þau fái eðlilega (Forseti hringir.) umfjöllun en í þessu máli munum við tala áfram.