Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 23:02:06 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað og óskað eftir því að hæstv. forseti upplýsi okkur um hve lengi fundur muni standa í kvöld. Ýmis okkar hafa um langan veg að fara heim og er kominn tími til að það verði upplýst hversu lengi fundur standi.

Þá finnst mér ástæða til að taka undir hugmynd hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um að senda sveit vaskra þingmanna út í heim til að kynna málstað okkar. Það hefur einfaldlega ekki verið gert og full ástæða er til þess. Ég vonast til að hæstv. forseti taki það mál til skoðunar og ræði það við formenn þingflokka og hugsanlega í hinni virðulegu forsætisnefnd sem stjórnar ýmsum málum í þinginu.

Hæstv. forseti. Ég sé vissulega hæstv. utanríkisráðherra hér en hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra virðast vera horfin á braut. Ég óska eftir upplýsingum um hvort þau séu í húsi og þá jafnframt hvort (Forseti hringir.) formaður og varaformaður fjárlaganefndar (Forseti hringir.) séu hér til að hlýða á umræðuna.