Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 23:03:24 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ítreka þessar óskir hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur varðandi viðveru hæstv. ráðherra og líka þeirra sem hafa verið með digurbarkalegar yfirlýsingar fyrir hönd meiri hluta fjárlaganefndar.

Ég vil líka sérstaklega undirstrika það sem hefur komið fram í máli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, sem er vel að merkja þingflokksformaður Hreyfingarinnar. Hún hefur ítrekað sett fram þá hugmynd að það eigi að senda vaska sveit manna og kvenna með skapandi hugsun út fyrir landsteinana til þess að útskýra þá fyrirvara sem þingið setti í sumar og útskýra þá slæmu stöðu sem Ísland er í. Það er alveg rétt að þegar við höfum verið á þingi Norðurlandaráðs, þingmannafundum EFTA, eða hvar við höfum verið, hefur berlega komið í ljós í hvert einasta sinn mikil vanþekking af hálfu okkar vinaþjóða um hvernig staða Íslands er. Ég legg því til að forseti sýni dug fyrir hönd þingsins, ekki fyrir hönd framkvæmdarvaldsins heldur fyrir hönd þingsins, og ræði sérstaklega í forsætisnefnd (Forseti hringir.) hvort ekki sé tilefni til þess að þingið taki þetta mál í sínar hendur en láti það ekki (Forseti hringir.) afbakast í höndum framkvæmdarvaldsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)