Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 23:53:39 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að sú breyting sem varðar efnahagslega fyrirvara varðandi þetta hámark sem við þingmenn settum í sumar á hvað hægt væri að greiða á ári — breytingin á þeim fyrirvara setji í rauninni stórt spurningamerki við það hvort okkur tekst að greiða þessa skuld miðað við þá samninga og það frumvarp sem verið er að reyna að gera að lögum hér. Ég vísa þar í þau álit sem efnahags- og skattanefnd og 4. minni hluti lagði fram í því máli. Þar kom fram að hugsanlega væri um óendanlega ríkisábyrgð, opinn tékka, að ræða. Það er ekki gott.

Það er gríðarlega alvarlegt að svo virðist sem hér sé að skapast meiri hluti fyrir því að kollvarpa þessum efnahagslega fyrirvara Íslendinga sem horft er á víða úti í heimi sem einstakt fyrirbæri sem skoða skuli vel á borðum hagfræðinnar og kanna hvort það geti orðið fyrirmynd annarra í svipuðum eða sambærilegum verkefnum.

Varðandi tenginguna við Evrópusambandið geri ég mér grein fyrir því, frú forseti, að ég þarf að biðja um að komast aftur á mælendaskrá þar sem ég sleppti algjörlega umfjöllun um það atriði í ræðu minni og óska hér með eftir því. Já, ég tel vera beina tengingu þarna á milli. Ég tel að ýmsir aðilar hér á landi telji að ef við héldum okkur við þau lög sem Alþingi setti í sumar mundum við raska um of ró ýmissa stórþjóða sem hafa mikið um það að segja hvort umsókn okkar og aðildarviðræðurnar komi til með að fara vel (Forseti hringir.) í þeirra augum.