Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 12:55:33 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur kærlega fyrir þann kjark og þá reisn að koma hingað upp í ræðustól og tala máli stjórnarinnar. Það er eitthvað sem aðrir stjórnarliðar mættu taka sér til eftirbreytni.

Ég hef áhuga á að heyra hvað hv. þingmaður segir um þá tímapressu sem tengist Evrópusambandinu hvað varðar afgreiðslu á Icesave. Í frétt á Pressunni kemur fram að á Evrópuþinginu var samþykkt ályktun þar sem skorað var á Alþingi Íslendinga að afgreiða ríkisábyrgðina á Icesave-samningunum við Hollendinga og Breta; verði það ekki gert sé hætta á að það hafi áhrif á aðildarumsókn Íslands.

Ýmsir þingmenn hafa einmitt fært mjög góð rök fyrir því að ekki sé lengur nein tímapressa og ekki lengur nein vopn hjá viðsemjendum okkar til þess að kúga okkur. Lánin hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ættu að vera að koma miðað við orð Dominique Strauss-Kahns og Már Guðmundsson (Forseti hringir.) hefur sagt að hann sé að fara að draga á lánin frá Norðurlöndunum núna. Er þetta þá þessi nýja tímapressa?