Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 13:58:30 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að minna á Brussel-viðmiðin er bara ein leið af mörgum sem við höfum til að minnka skaðann af þessu máli eins og ég rakti í ræðu minni. Fyrst við erum sundruð í þessu máli í þessari umræðu í þingsal og kannski skiljanlega — ég veit ekki af hverju við ættum að senda þau skilaboð til Breta og Hollendinga að þetta sé svo gott mál að meira að segja stjórnarandstaðan greiði atkvæði með þessu. Ég bara velti því upp. Kannski er þetta mál þess eðlis að það er ágætt að stjórnarandstaðan skuli þó senda þau skilaboð til Breta og Hollendinga að þetta sé óásættanlegt þó að stjórnarliðar komist kannski að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að fara neitt lengra með þetta mál.

Það er algjört lykilatriði að minna á Brussel-viðmiðin í því að reyna að minnka skaðann af þessu máli í framtíðinni. Ég nefndi fjölmargar aðrar leiðir sem við höfum og mér finnst mjög mikilvægt að við, þingmenn, þjóðin, sameinumst um að reyna að nýta okkur þær.