Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 14:01:05 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:01]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég rakti það í ræðu minni og geri það að grundvelli afstöðu minnar, sem er sú að greiða atkvæði á móti samningnum, að ég tel ríkisstjórnina ekki hafa haldið vel á málinu eða a.m.k. tel ég að hægt hefði verið að halda betur á því. Það á bæði við um forsögu þess og líka eftirleikinn, það er mín skoðun. Þetta er mjög erfitt mál, við erum að glíma við þjóðir, Breta og Hollendinga, þetta er milliríkjadeila, og ég sagði jafnframt að ég væri ekki viss um að betri árangur hefði náðst þó að ég hefði haldið á málinu eða einhverjir úr mínum flokki. Ég hlýt þó að vera þeirrar skoðunar, svo að maður hafi eitthvert sjálfsmat í pólitík, að við hefðum náð betri árangri og á því byggi ég afstöðu mína. Ég tek ekki undir ásakanir um landráð eða svik við þjóðina eða annað slíkt eða að menn hafi ekki verið að sinna hagsmunum Íslendinga. Ég er ekki tilbúinn í það.