Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 14:03:48 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það hefði verið gott fyrir málið ef samninganefndin sem skipuð var hefði verið þverpólitísk. Ég held að það hafi verið mistök hjá hæstv. fjármálaráðherra að skipa samninganefndina ekki öðruvísi, sérstaklega í ljósi þess hvernig málið er til komið. Það eru ekki endilega hann og hans flokkur sem bera ábyrgð á þessu máli. Það hefðu kannski verið ágæt rök fyrir því að þeir sem eru með skýrari fingraför á tilurð þess hefðu skipað samninganefndina. Þeir hefðu þá þurft að glíma við Breta og Hollendinga til að ná samkomulagi og þurft að rökstyðja þá niðurstöðu hér. En það varð ekki og ég held að það hafi verið mistök hjá hæstv. fjármálaráðherra að gera það ekki ef markmiðið var að reyna að skapa samstöðu.

Í eftirleik sumarþingsins hefði samstaða um fyrirvarana verið mjög góð en enn á ný er það einfaldlega ákveðið flækjustig í málinu að það er háð viðbrögðum Breta og Hollendinga. Við erum að semja við þjóðir í þessu.