Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 14:05:08 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að hrósa hv. þingmanni fyrir málefnalega og sanngjarna ræðu. Hún stakk ánægjulega í stúf við margar þeirra sem hér hafa verið fluttar, var laus við öll brigsl um að menn hefðu ekki reynt að gera sitt besta í þessum efnum og vinna hagsmunum landsins gagn. Það gleður mig á þessum annars að mörgu leyti dapurlega degi, sem hófst ekki vel í sölum Alþingis, hvað virðingu þess snertir, að heyra þó inn á milli svona ræður, það verð ég að segja. Ég held að hv. þingmaður hafi lýst þessu vel.

Þetta er engu okkar gleðiefni og það er fullkomlega eðlilegt að deilt sé um stöðumat, að uppi sé mismunandi mat á því hvort staða Íslands hafi boðið upp á betri samninga eða ekki og þá í framhaldinu hvort við værum tilbúnir að taka áhættuna af því að leggja upp í enn einn óvissuleiðangurinn, hugsanlega í von um eitthvað skárra. Og hvað mundi það kosta okkur?

Ég kveinka mér ekkert undan því hlutskipti sem mér hefur verið falið í þessum efnum. Ég hef einfaldlega algerlega sannfærst um að við verðum að leiða þetta mál til lykta og því fyrr því betra. Það er misskilningur að við eigum þann kost að draga það. (Forseti hringir.) Í viðaukasamningunum eru ákvæði um að Íslendingar ljúki við sinn hluta málsins í nóvembermánuði. Greiðsluskylda innlánstryggingarsjóðs er orðin virk og þar fram eftir götunum.