Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 14:07:43 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nákvæmlega þannig sem það var. Að hluta til hélt sama samninganefnd áfram, skipuð fulltrúum ráðuneyta og stofnana sem mestra hagsmuna áttu að gæta, fulltrúar úr Seðlabanka, frá innlánstryggingarsjóði og frá viðskiptaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og úr fleiri ráðuneytum voru sömu aðilar og komið höfðu að málinu í október, nóvember og desember. En nefndin var síðan endurmönnuð að hluta til sem eðlilegt var eftir stjórnarskiptin. Það var sams konar nefnd að uppistöðu til, skipuð sérfræðingum og embættismönnum, sem hélt áfram utan um málið og ég tel að engin mistök hafi verið fólgin í því. Til forustu fyrir þessu var valinn maður sem ég treysti vel enda málið á mína ábyrgð og ég hef engan beðið að taka þá ábyrgð af mínum herðum. Og ef menn telja sig hafa eitthvað út á það að setja bið ég menn að beina þeirri gagnrýni að mér en ekki að fólki sem hefur ekki gert annað en reyna að vinna hagsmunum landsins vel og er ekki hér til að svara fyrir sig.

Ég vil svo gleðja hv. þingmann með því að ég tók nákvæmlega það sem hann nefndi upp á sameiginlegum fundi EES og ESB-ráðherra í Brussel, svonefndum Ecofin-fundi. Þar hélt ég því til haga að okkur Íslendingum hefði þótt skorta á samevrópska ábyrgð á hinu gallaða regluverki og að verið væri að þvinga okkur til að leysa það á okkar kostnað. Ég er sammála hv. þingmanni um að þessu þurfum við að halda við og halda vakandi.