Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 14:13:18 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að leggja áherslu á eitt grundvallaratriði. Ef málið verður samþykkt í þingsal verður það væntanlega samþykkt á grunni þess að stjórnarliðar telja að ekki sé hægt að ná betri samningum, ekki sé hægt að ná lengra í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga. Ég vona að stjórnarliðar ætli ekki að fara að samþykkja þennan samning á einhverjum öðrum grundvelli, t.d. þeim að þeir telji þetta vera eitthvað sérstaklega æðislegt. Ég efast um að það liggi að baki.

Ég rakti í ræðu minni hvernig við eigum að nýta okkur það að þetta er þó veruleiki málsins, flestir þingmenn ef ekki allir eru í hjarta sínu á móti öllum þessum málatilbúnaði, á móti þessu óréttlæti sem nú bitnar á okkur. Við eigum að skapa úr því samtakamátt, samheldni, bæði hér á þingi og meðal þjóðarinnar, um að lágmarka skaðann af þessu öllu saman. Ég rakti nokkrar leiðir til þess í ræðu minni og ein af þeim er að sjálfsögðu að senda þingmenn okkar út í heim þó að það sé dýrt út af genginu.