Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 14:14:51 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:14]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það var einkar ánægjulegt að sjá hæstv. fjármálaráðherra koma hingað í andsvör við hv. þm. Guðmund Steingrímsson áðan. Ég vona að hæstv. ráðherra tjái sig þá almennt í ræðu og er þá sérstaklega með það í huga að á veffjölmiðlinum Pressunni kemur fram að Evrópuþingið sé að þrýsta á það núna og sé búið að álykta um það og samþykkja að Íslendingar verði að samþykkja Icesave, annars muni umsóknar- og aðildarferlið tefjast. Þetta er algerlega óþolandi, ekki síst fyrir þá sem eru talsmenn þess að þetta ferli verði klárað, þ.e. aðildarumsóknarferlið við ESB. Ég vil gjarnan fá að heyra afstöðu ráðherra hvað varðar þennan þrýsting frá Evrópusambandsþinginu sem er algerlega óþolandi.

Ég sé að hæstv. forsætisráðherra er mættur á staðinn. Við verðum að heyra viðhorf Íslands og íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi þessar skoðanir Evrópuþingsins, annað er ekki bjóðandi. Eigum við enn og aftur að víkja undan þrýstingi frá Evrópusambandsþinginu? Ég held að það sé algerlega ólíðandi. Ég tel því mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra tjái sig um þessa afstöðu Evrópuþingsins.