Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 14:27:51 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að biðja herra forseta, eins og gjarnan sagt er við þingmenn, að gæta orða sinna þegar hann stýrir fundi og benda honum á að hann er forseti allra þingmanna þegar hann situr í forsetastól. Ég vil einnig fara fram á það við hæstv. forseta að hann beiti sér fyrir því — það hefur verið dregið fram að Evrópuþingið er enn einu sinni að kúga íslenska þjóð til þess að taka ákvarðanir gegn vilja sínum — að hlé verði gert þannig að hægt verði að funda um þetta atriði, þó ekki væri nema þetta atriði. Ég vil einnig benda á það að á dagskrá eru mjög mikilvæg mál sem þarf að ræða, ég tek alveg undir það.

Ég held að betur fari á því að við förum í að ræða þau mál og virðum þær óskir sem hafa komið fram um að ræða þurfi ákveðna hluti varðandi þetta Icesave-mál betur, ekki síst í ljósi þess sem fram hefur komið. Ég hvet hæstv. forseta til þess að beita sér í því.