Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 15:10:53 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir afar yfirgripsmikla og góða ræðu. Í ræðu sinni vék hún að efnahagslegu fyrirvörunum, að það er búið að aftengja þá. Menn hafa náttúrlega gríðarlegar áhyggjur af gengisáhættunni inni í samningunum. Það hefur komið í ljós af því að það er búið að festa gengi kröfu tryggingarsjóðsins við 22. apríl að nú þegar er komið 80 milljarða gat í hinn endann gagnvart því, sem er gríðarleg áhætta. Það hefur nú komið fram og er reyndar í lögum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta að það megi greiða kröfurnar í íslenskum krónum en eins og við munum þá sló fjölfræðingurinn frægi í fjármálaráðuneytinu það reyndar út af borðinu. Mig langar því að vita hver skoðun hv. þingmanns á því er hvort ekki hefði verið skynsamlegra fyrir tryggingarsjóðinn að greiða kröfur sínar í íslenskum krónum og notast þá við þau lög sem um hann standa.