Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 15:23:18 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór yfir margs konar kúgun sem við urðum fyrir, m.a. kúgun Evrópusambandsins og kúgun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á margan hátt, en hann minntist ekki á það sem var kannski alvarlegast en það var kúgunin í gegnum gjaldeyrismarkaðinn. Það var ekki hægt að millifæra peninga til landsins, sem á vissan hátt er afleiðing af því að nýju bankarnir voru með nýjar kennitölur sem menn treystu ekki úti í heimi, en líka út af hryðjuverkalögum Breta.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hæstv. utanríkisráðherra fyrrverandi var í miðjum þessum erli og nú sér hún fyrir sér hvernig þetta samkomulag verður, hvað við erum að fara að samþykkja. Þessi reyndi stjórnmálamaður ákveður 14. nóvember að koma fram og í raun vara við. Hvern er hún að vara við? Ég tel að hún sé að vara Samfylkinguna við, að Samfylkingin sé að leggja á þjóðina (Forseti hringir.) byrðar sem þjóðin getur ekki staðið undir.