Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 15:30:34 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér kem ég í mína fyrstu ræðu um þetta mikilvæga málefni sem snertir þjóðarhag um ókomna tíð verði það frumvarp að lögum sem liggur fyrir þinginu. Ég vil byrja á að vekja athygli á því að niðurlæging íslenska þingsins er alger, íslenska þingið má sæta því í dag að vera hótað af Evrópusambandinu, það liggja fyrir hótanir um það að ef við ekki samþykkjum Icesave komumst við ekki strax inn í ESB. Þetta er alveg með ólíkindum. Það er ekki nóg með að lagt sé til í þessu frumvarpi að við framseljum löggjafarvald Alþingis Íslendinga til Breta og Hollendinga, því að eins og allir vita eru í gildi lög um Icesave-samningana sem voru samþykkt 28. ágúst í sumar, það er lagt til, út af því að Bretar og Hollendingar gátu ekki sætt sig við þau lög að þeir fái löggjafarvaldið og það kemur fram í frumvarpinu að íslenska framkvæmdarvaldið hefur beygt sig og er komið heim á ný með nýtt frumvarp með hótunum á nýjan leik.

Öllu alvarlegra er hins vegar það að í nýja frumvarpinu er líka lagt til að við afsölum okkur dómsvaldinu til Bretlands. Hvað er þá orðið eftir nema hið íslenska framkvæmdarvald og fyrir hverja starfar hið íslenska framkvæmdarvald? Jú, ég get ekki séð að það starfi fyrir aðra en kóngana í Brussel, fyrir kónana í Evrópusambandinu sem vilja fá okkur þangað inn sem fyrst, því að eins og hótanirnar bera með sér eru þetta raunverulegar hótanir, þökk sé Samfylkingunni. Hvernig skyldi formanni Vinstri grænna líða í dag þar sem á stefnuskrá flokksins í síðustu kosningum var alger höfnun á því að teknar yrðu upp viðræður, hvað þá að Evrópusambandið yrði skoðað? Hvernig skyldi formanninum líða þegar hann er farinn að sæta sem fulltrúi í ríkisstjórninni, sem hæstv. fjármálaráðherra, hótunum frá Evrópusambandinu, hótunum sem hann kom sjálfur þjóðinni í með því að vera aðili að því að hleypa Evrópusambandsaðildarumsókn í gegnum þingið?

Þetta er grafalvarlegt mál og ég vil minna þingmenn á stjórnarskrána. Þegar menn setjast á þing og eru réttkjörnir skrifa þeir undir eið við stjórnarskrána þar sem kemur fram í 48. gr. að alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Þess vegna eiga íslenskir þingmenn heldur ekki að taka við fyrirskipunum frá Brussel. Það er alveg klárt og nú skora ég á þingmenn Vinstri grænna að gera upp hug sinn, vinna þetta mál með sannfæringu sinni, með sínu eigin hjarta og taka ekki við skipunum frá Brussel þó að þeir taki við skipunum frá ríkisstjórninni. Ég skora á alla þingmenn Vinstri grænna en því miður er enginn þeirra í þingsalnum, ég vona að þeir sitji á skrifstofum sínum og séu að hlusta á mig og þennan boðskap því að það er alvarlegt mál ef fólk fer á skjön við stjórnarskrána og sérstaklega verða kjósendur að treysta þingmönnum sem þeir kjósa á þing því að þeir eru þar kosnir sem persónur fyrst og fremst þó að þeir séu bundnir í flokka.

Í þessari ræðu ætla ég að fara yfir friðhelgisréttindin og náttúruauðlindaafsalið á ný því að nú liggur fyrir Alþingi þetta nýja frumvarp sem leiðir af sér, verði það samþykkt, ný lög. Friðhelgisréttindin og náttúruauðlindirnar eru fyrir borð borin í hinu nýja frumvarpi, fer ég yfir það í ítarlegu máli í ræðu minni og bið þingmenn um að leggja vel við hlustir því að eins og fram hefur komið erum við með algerlega nýtt mál í höndunum. Búið er að kollvarpa lögunum frá því í sumar, framkvæmdarvaldið fer fram á það við löggjafarvaldið að það verði lúffað með þau lög sem í gildi eru. Ég minni þingmenn á að það gerist ekkert hér á landi þó að frumvarpið sem nú liggur fyrir verði fellt því að í gildi eru lög sem taka á ríkisábyrgð og samningnum við Breta og Hollendinga. Munið það. Ekki láta hræða ykkur til fylgni við þetta frumvarp því að það gerist ekki neitt. Það gerist ekki neitt frekar en hina hótunardagana sem búið var að hóta þingmönnum með í sumar, því að í nýja frumvarpinu stendur að hafi Alþingi ekki samþykkt ríkisábyrgð þann 30. nóvember muni Bretar og Hollendingar tafarlaust senda innstæðutryggingarsjóði bréf þar um og gjaldfella samninginn. Ég segi nú, eins og ég sagði í sumar, verði Bretum og Hollendingum að góðu að senda það bréf, því að eins og allir vita er innstæðutryggingarsjóður gjaldþrota og það er verið að fjalla um ríkisábyrgð á hinum gjaldþrota sjóði, það er innihald frumvarpsins.

Það minnir mig aftur á móti á að ég var með fyrirspurn í síðustu viku til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um það hvort til stæði að endurreisa tryggingarsjóð eða hvar þau mál væru stödd. Jú, hann viðurkenndi að nú væri verið að stofna nýjan innstæðutryggingarsjóð sem vekur enn þá fleiri spurningar. Er þá enginn starfandi innstæðutryggingarsjóður nú úr því að sá fyrri er gjaldþrota og ekki er búið að stofna hinn nýja? Vissulega er hér um að ræða kennitöluflakk ríkisins eins og hefur komið fram, en hvar er þá innstæðutryggingarsjóðurinn nú sem bankastofnanir eiga að vera að greiða í? Hann er ekki til og því hefur skapast hér mikil réttaróvissa. Ráðherrann upplýsti þá í svari við þessari fyrirspurn að verið væri að smíða lagafrumvarp til endurreisnar nýjum innstæðutryggingarsjóði sem byggðist á reglum og regluverki frá Evrópusambandinu sem var tekið upp. Eftir að íslensku bankarnir hrundu endurskoðaði Evrópusambandið allt sitt regluverk um innstæðutryggingarsjóði sem segir okkur Íslendingum að það var útbreidd skoðun að ríki bæru ekki ríkisábyrgð heldur var eingöngu nóg að stofna slíka sjóði, enda kom það á daginn eins og ég hef sagt að Bretar og Evrópusambandið allt breyttu reglunum um þessa innstæðutryggingarsjóði. Enda hafði það verið útbreidd skoðun í Evrópu frá því að tilskipun 94/19/EB var sett að innstæðutryggingarsjóðir væru sjálfseignarstofnanir, það var nóg að ríki fylgdu því að stofna þá sjóði og það var útbreiddur skilningur í Evrópu og Evrópusambandinu að á þeim væri ekki ríkisábyrgð. Þetta kom m.a. fram í áliti seðlabanka Frakklands árið 2000 og var síðan framfylgt með dómi Evrópudómstólsins í máli C-222/02 frá 2002 þar sem kom skýrt fram að það væri ekki ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðum. Þarna sjáum við hvernig við vorum lögð að veði. Okkur var fórnað á altari hins evrópska fjármálalífs, hins evrópska fjármálakerfis, enda hefur það komið í ljós í fréttum í þessari viku að ríki gripu til þess ráðs að veita bönkum sínu leynilán til þess eins að forða þeim frá falli þegar hér var saman að hrynja á haustdögum.

Ég er búin að fara yfir það og þarf ekki að fara yfir það aftur en allt þetta mál má rekja aftur til 1. janúar 1994 er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið varð að lögum, með lögum nr. 2/1993 um sama efni. Ég minni á að þá voru kratar í ríkisstjórn og það var komið inn á stefnuskrá Alþýðuflokksins gamla að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þeir náðu því að vera nokkur ár í ríkisstjórn og komu þessu í gegn með þessum hætti. Lögin um Evrópska efnahagssvæðið leiddu svo til þess að við urðum að innleiða þessa tilskipun sem ég minntist á áðan með lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þannig er staðan nú og við vitum ekki hvert framhaldið verður, því að ég trúi því að þingmenn Vinstri grænna beri gæfu til að standa með þjóðinni í þessu frumvarpi, engin orrusta er töpuð fyrr en í fulla hnefana og þeir fullu hnefar eru hér þegar verður greitt atkvæði um frumvarpið.

Mig langar aðeins til að koma inn á háttsemi hæstv. fjármálaráðherra í umræðu og aðdraganda þeirrar lagasetningar sem nú liggur fyrir. Það hefur komið fram mjög málefnaleg gagnrýni, komið upp nýir vinklar sem vert væri að skoða, sem búið er að biðja um að fari inn í fjárlaganefnd og inn í efnahags- og skattanefnd til að skoða betur og fá til þess færustu sérfræðinga eins og Framsóknarflokkurinn hefur talað um alla tíð, að fá færustu erlendu sérfræðinga til að hjálpa okkur í þessu máli, en það er eins og fjármálaráðherra sé sleginn blindu því að öll rök eru rökkuð niður. Reynt er að hafa mannorðið af öllum þeim aðilum sem gagnrýna Icesave-samningana, nýja frumvarpið, þeir eru ekki hæfir, þeir eru gagnrýndir, þeir eru grunsamlegir, þeir eru niðurlægðir opinberlega. Það skiptir engu máli fyrir hæstv. fjármálaráðherra hvort verið er að tala um íslenska þingmenn eða erlenda sérfræðinga og fagmenn. Þessi hegðun er óafsakanleg, þessi hegðun sæmir ekki þeim aðila sem situr í ríkisstjórn Íslands. Þeim aðilum sem sitja í ríkisstjórn Íslands ber fyrst og fremst að bera hag þjóðar sinnar fyrir brjósti, fyrst og síðast, en ekki að taka undir með erlendum aðilum sem kúga þing og þjóð.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur beinlínis hagrætt sannleikanum oft og tíðum, og hef ég áminnt ráðherra síðan ég kom inn á þing að gæta orða sinna í þessum ræðustól í því að segja þingi ekki rétt frá. Það lýtur undir ráðherraábyrgð stjórnarskrárinnar og lögum um ráðherraábyrgð og vil ég minna ráðherra á það. Ég nefni sem dæmi: Því var haldið fram í sumar að ekki hefði borist svar frá Bretum og Hollendingum á meðan farþegi í flugvél Icelandair sat fyrir aftan aðstoðarmann hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann var að gera drög af þeim fundum sem hann sat á. Þetta leiddi til þess að fjölmiðlar voru lengi á eftir ráðherranum en hann taldi að aldrei hefði neitt svar komið frá Bretum og Hollendingum. Svo gerist það um miðjan september að skyndilega kallar fjármálaráðherra fjárlaganefnd út klukkan 6 síðdegis, og eins og flestir vita eru margir þingmenn sem sæti eiga í fjárlaganefnd búsettir úti á landi, þannig að þetta var skyndifundur. Þar var hæstv. fjármálaráðherra kominn með plagg frá Bretum og Hollendingum, plagg sem átti að fara í gegnum fjárlaganefnd á einu augabragði því að þetta var kallað „non paper“. Þetta þurfti pínulitla þingsályktunartillögu eins og hæstv. fjármálaráðherra taldi að koma þessu máli inn í þing en undir lá breyttur samningur sem núna liggur fyrir hér í frumvarpsdrögum. Það er alvarlegt þegar verið er að reyna að slá ryki í augu þingmanna.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þann hræðsluáróður sem ríkisstjórnin hefur beitt þingið — tíminn flýgur áfram í þessari ræðu, ég ætlaði fyrst og fremst að tala um friðhelgisréttindin — en það fór nú svo í haust að reka þurfti hræðsluáróður ríkisstjórnarinnar til baka. Það kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra þegar því var komið á flot að sjálfur EES-samningurinn væri í hættu ef við mundum ekki skrifa undir Icesave og samþykkja þetta nýja frumvarp, hann kom í ræðustól og taldi svo ekki vera enda væri um fullkominn spuna að ræða, eins og kannski þessi flokkur er hvað mest þekktur fyrir að halda spunanum úti og halda ekki síst þjóðinni hræddri. Það er viðurkennd stjórnunaraðferð að halda þjóð hræddri til að geta haft betri tök á henni, vera með misvísandi skilaboð ekki segja nema hálfan sannleika, beita hræðsluáróðri. Þetta er allt saman einkennandi fyrir þá ríkisstjórn sem nú situr, því miður, því að nú eru þeir tímar að við þurfum hvað mest á því að halda að standa saman og hlúa hvert að öðru og reyna að finna lausn á vanda heimilanna. En hér erum við enn á ný að ræða Icesave-málið sem er löngu afgreitt. Ég fordæmi þetta, frú forseti.

Það liggur fyrir eins og ég hef sagt að nú þegar eru gildandi lög um þetta mál og vil ég minna á frumvarpið sem varð að lögum 2. september í sumar þar sem það kemur skýrt fram í 2. mgr. 1. gr., með leyfi forseta:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Þarna er þetta alveg skýrt. Það var í þessu umboði sem lögin voru samþykkt á Alþingi, að vísu ekki með samþykkt framsóknarmanna og ekki sjálfstæðismanna og ekki núverandi þingmanna Hreyfingarinnar, en þarna brást fyrst og fremst framkvæmdarvaldið því að það var farið að semja um þessi lög.

Ég vil benda hæstv. ríkisstjórn á að það er ekki hægt að semja um lög sem Alþingi hefur sett. Ísland hefur löggjafarvald með 63 þingmönnum og það er ekki hægt að semja um lög þegar þau hafa verið sett. Þarna fer samt ríkisstjórnin út af sporinu, fer út með sömu samninganefndina og það er komið heim á haustdögum með nýtt mál. Með öðrum orðum, það er búið að setja fyrirvarana inn í Icesave-samningana sem lágu fyrir í sumar og þarna erum við komin að ákveðnum vendipunkti í þessu máli öllu og þessari ræðu minni sem snýr að friðhelgisréttindunum.

Upphaflega var í Icesave-samningunum fallið frá friðhelgisréttindunum í 18. gr. bresku samninganna, þar sem íslenska ríkið féll fullkomlega frá öllum þeim friðhelgisréttindum sem ríkið hefur. Þetta var hinn glæsilegi samningur sem hæstv. fjármálaráðherra kom með fyrir þingið í frumvarpsdrögum og Icesave-samningunum. Það var eins og hæstv. fjármálaráðherra hefði ekki lesið samningana, því að þegar ég benti á að fallið væri frá friðhelgisréttindunum og hvað það þýddi, urðu hér nokkrir ráðherrar ansi hissa.

Það sem gerist næst um friðhelgisréttindin er að það fara inn í lögin um ríkisábyrgðina forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar í lögum nr. 96/2009, að friðhelgisákvæðin séu varin og það í fyrirvörum sem þar segir til um alveg skýrt. Það kemur fram í 2. gr. sem forsenda fyrir veitingu ríkisábyrgðar í frumvarpinu sem varð að lögum í sumar. Það kemur fram í 2. tölul. 2. gr. „að staða Íslands sem fullvalda ríkis komi í veg fyrir að gerð verði aðför í eignum þess sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki“ o.s.frv. Og í 3. tölul. að hvergi verði haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindum landsins. og rétti handhafa íslensks ríkisvalds til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhalds á þeim. Þarna var þetta komið inn í fyrirvara, þökk sé Framsóknarflokknum.

Það sem gerist síðar er það að ríkisstjórnin fór og samdi um lögin. Sendinefnd var send aftur til Brussel og Hollands án þess að kalla til færustu sérfræðinga og nú liggur fyrir að það á að setja þennan skilning inn í Icesave-reikningana. Með leyfi forseta, ég les hér upp úr minnisblaði sem lagt var fyrir fjárlaganefnd um friðhelgisréttindi:

„Samkvæmt 2. tölul. 2. gr. laga nr. 96/2009 er gert ráð fyrir að staða Íslands sem fullvalda ríkis komi í veg fyrir að gerð verði aðför í eignum þess sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki með viðunandi hætti og það sama eigi við um eignir íslenska ríkisins erlendis, þar á meðal eignir Seðlabanka Íslands, er njóta verndar samkvæmt almennum reglum þjóðaréttar. Þetta ákvæði var sett til að tryggja betur friðhelgisréttindi íslenska ríkisins, en ákvæði um þau efni voru gagnrýnd í lánasamningnum frá 5. júní 2009.“

Síðan segir í þessu minnisblaði sem lagt var fyrir fjárlaganefnd:

„Það er að fullu leyti komið til móts við þetta ákvæði í viðaukasamningnum, samanber grein 3.3.3 í þeim breska. Ákvæði þetta er svohljóðandi í íslenskri þýðingu:

„Samningsaðilar staðfesta að þótt fallið sé frá friðhelgisréttindum í 18. mgr. [í þessu tilfelli í breska samningnum frá því í sumar] nái það ekki til þeirra eigna íslenska ríkisins sem njóta friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum, eigna íslenska ríkisins á Íslandi sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki, eða eigna Seðlabanka Íslands.““

Þarna erum við komin að málinu sem skiptir sköpum í þessu öllu saman, þetta er sameiginlegur skilningur samningsaðila sem eru annars vegar innstæðutryggingarsjóður, því að íslenska ríkið er ekki aðili að þessum samningi sem hefur verið mjög gagnrýnt af lögfræðingum hér á landi. Íslenska ríkið á ekki aðild að þessum samningi þó að ríkisábyrgðin fari brátt í þúsund milljarða eftir því hvernig verðlagsþróun, gengisþróun og annað verður hér á landi um ókomin ár, og sérstaklega í ljósi þess að búið er að framlengja samningnum út í hið óendanlega þar til hann er að fullu greiddur og ég minni á það að einungis vextir af Icesave-samningnum eru 100 milljónir á dag. — Ég var í kynningu uppi á Vogi áðan þar sem var verið að kynna fyrir mér starfsemina sem þar er rekin, algjört grundvallarforvarnastarf. Ég sá það fljótt að hægt væri að nota eins dags vaxtagreiðslu af Icesave með góðum hætti þar, að við tölum ekki um öll ósköpin sem hægt væri að gera fyrir allar þær upphæðir sem þarna eru. — Þarna erum við komin að því að samningsaðilar staðfesta að þótt fallið sé frá friðhelgisréttindum, eigi það ekki við. Íslenska ríkið er ekki aðili að Icesave-samningunum, þannig að þarna er innstæðutryggingarsjóður að semja við Breta og Hollendinga. Við skulum hafa rétthæðina á hreinu í þessu máli, þarna er það, en þá komum við að því að þó að samningsaðilar staðfesti þennan skilning dugar það ekki til, út af því að búið er að setja þetta inn í viðauka, inn í Icesave-samningana og þar með falla allir samningarnir undir breska lögsögu. Við erum komin á byrjunarreit frá því í vor. Þarna er komið inn eitthvert lítið ákvæði á einhverjum skilningi í samningnum. Þetta er búið að koma friðhelgisréttindunum og náttúruauðlindunum inn í viðaukann sem er fullgildur í Icesave-samningunum, þannig að við skulum ekki rugla því saman, fyrst eru Icesave-samningarnir og svo er viðaukasamningurinn, og þá skulum við vera minnug þess að hér er búið að framselja dómsvaldið.

Ég sat á fundi fjárlaganefndar þar sem rætt var við breskan lögfræðing sem hafði komið framkvæmdarvaldinu til hjálpar í þessu máli við að reyna að fá þessa niðurstöðu í þennan samning, til hjálpar Bretum að því virðist. Hann var spurður að því út af hverju þeir stæðu svona fast á því að reka mál fyrir breskum dómstólum. Þá sagði þessi lögfræðingur að Bretar og Hollendingar treystu ekki íslenskum dómstólum. Samninganefndin gat ekki einu sinni staðið í lappirnar með það að halda dómhánni hér á landi til að við ættum einhvern sjens í þessa háka sem eru þarna að bíða eftir ríkisábyrgðinni.

Þá komum við að því aftur að samkvæmt Icesave-samningunum falla þeir í breska lögsögu og breskir dómstólar dæma í málum sem að honum snúa. Þó að það sé skilningur samningsaðila að friðhelgisréttindunum sé haldið til haga og náttúruauðlindunum líka, eru það ekki þeir sem segja til um það heldur breskir dómstólar. Verði ágreiningur um túlkun samningsins eru það að sjálfsögðu breskir dómstólar sem koma til með að dæma í þeim málum og þar með erum við búin að missa þetta ákvæði með friðhelgisréttindin út, því að samkvæmt breskum lögum um friðhelgi ríkja frá 1978 geta ríki afsalað sér friðhelgi á mjög víðtækan hátt með skriflegu samþykki og því allar líkur til þess að ákvæðið standist að fullu breska löggjöf. Hvað hefur verið gert í Icesave-samningunum? Í upphaflega samningnum frá því í sumar er þetta alveg skýrt; fallið frá friðhelgisréttindum. Það er undirskrifað af framkvæmdarvaldinu, framkvæmdarvaldið er að biðja löggjafann að skrifa undir þetta með því að veita ríkisábyrgð, með því að samþykkja þetta sem lög. Þetta ákvæði sem er komið inn í nýja frumvarpið hjálpar til við það að við missum friðhelgisréttindin því að þetta er einungis skilningur á milli aðila.

Það er grafalvarlegt mál hvernig er komið fyrir þessu máli, hvernig er að fara fyrir íslensku þjóðinni í þessu máli. Hér er verið að skuldbinda núlifandi kynslóðir og komandi kynslóðir. Það ætlaði allt að fara af hjörunum um daginn þegar kom í ljós að nokkrir foreldrar höfðu tekið lán út á börnin sín. Íslenska ríkisstjórnin er að taka veð í komandi kynslóðum, kennitölum sem ekki eru einu til, um ókomna tíð.

Svo er annað varðandi náttúruauðlindirnar. Ég læt þetta duga um friðhelgisréttindin, ég held að þetta sé alveg skýrt. Ég legg áherslu á að fengnir verði færir breskir lögfræðingar til að túlka þetta ágreiningsmál þegar þetta frumvarp fer inn í efnahags- og skattanefnd og ekki síst fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd, því að það hefur komið ósk um það í þinginu að málið fari í nefnd aftur á milli 2. og 3. umr., þvílíkar eru athugasemdirnar við þetta frumvarp og svo mikið í húfi fyrir íslenska þjóð að slíkt má ekki hunsa. Nú er seinasti sjens að fella þessi lög, það verður að gerast. Það verður að fella þessi lög, það má ekki láta þennan óskapnað verða að lögum.

Ég var búin að fara í gegnum það að verið sé að flytja löggjafarvaldið til Breta og Hollendinga. Ég var á fundi með umboðsmanni Alþingis nú í vikunni þar sem kvartað var mjög undan því og ábendingar um það að íslensk löggjöf væri með þeim hætti að það væri sífellt verið að færa stjórnsýslulega gjörninga í einkaréttarlegan búning, samanber með neyðarlögin. Nú er það svo að umboðsmaður getur lítið haft um þau að segja, því að það er búið að færa skilanefndirnar í einkaréttarlegan búning. Þarna erum við líka að tala um það að nú er löggjafarvaldið komið í breska og hollenska lögsögu enda er það náttúrlega alveg skýrt, Evrópusambandið virðist vera farið að skora mikið á íslenska þinginu úr því að það getur birt áskoranir um það að neyða okkur til að samþykkja þessi lög, hrópa húrra fyrir því. Hvernig halda menn að þetta verði þegar við verðum orðin aðilar að því? Þið getið ímyndað ykkur hverju við fáum ráðið, það koma bara áskoranir frá þinginu. Þetta er auðvitað alveg hreint ótrúlegt. Ég vona að þetta verði tekið upp í fjölmiðlum í kvöld í fréttatímum og að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra verði spurðir að þessu frá sitt hvorum stjórnmálaflokknum, sér í lagi vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra fer fyrir þeim flokki sem ekki vill ganga inn í Evrópusambandið og það vill svo vel til að formaður Heimssýnar sem berst á móti Evrópusambandinu er þingmaður þess sama flokks.

Hv. þm. Ólöf Nordal hefur verið óþreytandi við að benda á að verið sé að færa dómsvaldið úr landi líka og ber að þakka henni fyrir það að hafa vakið athygli á þessu og það hafa komið fyrir fjárlaganefnd stjórnskipunarfræðingar sem hafa staðfest þetta, þannig að við erum vissulega á hættulegri braut sem réttarríki. Þessi skuld sem Icesave-samningarnir eru var umdeild skuld strax í upphafi, lögfræðilega röng í upphafi. Það myndaðist hér panik síðasta haust og á því hafa Bretar og Hollendingar hangið og hafa kúgað íslensku sendinefndina, eða ég veit raunverulega ekki hvort þurft hafi að kúga sendinefndina, samningurinn sem kom heim var með þeim hætti að það var eins og farið hefði verið út eingöngu til þess að skrifa undir.

Nú er verið að leggja til að gera ríkisábyrgðina skilyrðislausa. Í lögunum frá 28. ágúst sem urðu að lögum 2. september var hún þó skilorðsbundin út af því að þingmenn höfðu komið því í gegn að gera fyrirvarana svo sterka, en nú er hún skilyrðislaus og allir fyrirvararnir komnir inn í Icesave-samninginn sem viðauki.

Ég minni þingmenn aftur á það að íslenska ríkið er ekki aðili að samningunum sem gerir málið enn þá flóknara og gerir þetta mjög þungt í vöfum og sýnir hvað búið er að semja mikið af sér, að íslenska ríkið skuli ekki geta komið sjálft fyrir dómstóla í Bretlandi heldur er það gjaldþrota sjóður sem kemur til með að vera þar í fyrirsvari.

Þetta mál er allt saman með ólíkindum, að íslenska ríkið skuli ekki hafa stjórn á málum sínum. Hér starfar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, við erum undir hælnum á honum, hér starfar landstjóri. Þetta er skuggaríkisstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og ég hef áður sagt. En það sem verra er, ríkisstjórnin virðist ekki einu sinni hafa stjórn á sínum málum, því að allt sem er lagt til á Alþingi er ekki til hjálpar þjóðinni, ég nefni sem dæmi hinar miklu skattálögur sem verið er að leggja á, að við tölum ekki um Icesave-samningana.

Það kemur fram í áliti í frumvarpinu sem nú liggur fyrir að Seðlabanki Íslands var beðinn að gefa álit sitt varðandi eignarstöðu búsins, hæstv. fjármálaráðherra hefur talað um það að Icesave-skuldbindingarnar séu ekkert mál fyrir íslenska þjóðarbúið, því að það eigi eftir að koma íslenska ríkinu í gegnum árið 2011. Ég fékk loksins svör við því á fundi fjárlaganefndar hvers vegna íslenska ríkið skuldaði svona mikið 2011, þar erum við að tala um 1.500 milljónir evra. Þá kom í ljós í svari fulltrúa Seðlabankans að gripið hefði verið til þess ráðs að taka lán í míníbankakrísunni 2005 til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Þarna erum við með alveg svakalegar skuldbindingar, þannig að það er ekki nema von að ríkisstjórninni finnist Icesave-skuldbindingin lítil að þessu leyti, en ég minni á að þegar margt stórt kemur saman verður það að stóru hlassi. Það er verið að skuldsetja þjóðina með slíkum ólíkindum að það er ekki hægt að sjá út úr augunum með þetta mál.

Eftir fund í fjárlaganefnd, og eftir að fulltrúar Seðlabankans höfðu komið sem gestir fyrir nefndina og dreift þar minnisblaði sem er nú á bls. 9 í frumvarpinu, ef einhver vill kynna sér það, vöknuðu ýmsar spurningar. Og í samráði við hv. þm. Höskuld Þórhallsson, sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd og hefur staðið sig alveg afskaplega vel í þeirri nefnd og staðið í lappirnar gegn því ægivaldi sem ríkisstjórnarflokkarnir leggja á þingmenn, vöknuðu nokkrar spurningar eins og t.d. um það að í þessu minnisblaði er talað um 50% endurheimtur á skuld tryggingarsjóðs við Breta og Hollendinga og langaði mig þá að vita hvað átt væri við með þeim endurheimtum úr búi Landsbankans. Það kom svar frá Seðlabankanum, með leyfi forseta:

„Með endurheimtum úr búi Landsbankans er átt við samtölu þess sem kom í hlut tryggingarsjóðsins af greiðslu fyrir eignir bankans sem hlutfall af kröfu sjóðsins í erlendri mynt. Það hefur verið skilningur Seðlabankans að tölur um endurheimtur sem skilanefnd Landsbankans hefur látið frá sér fara séu þannig reiknaðar. Í álitum Seðlabankans er gert ráð fyrir lítils háttar styrkingu á gengi krónunnar frá því sem var í byrjun þess árs, sem leiðir til þess að tiltekið endurheimtuhlutfall reiknast aðeins lægra í krónum en í erlendri mynt.“

Þetta er allt saman með þessum hætti. Í þessu minnisblaði er talað um að í beiðni fjárlaganefndar hafi verið beðið um útreikninga miðað við 50, 75 og 90% endurheimtur úr búinu. Svo virðist vera að enginn viti um hvað málið snýst og það er ekki hægt að festa hönd á neitt í þessu máli út af því að bæði gengisþróun, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið svo ötull við að benda á, og eins sú sjónhverfing hvað fæst raunverulega upp í Landsbankann eða hvað eignir hans ná langt upp í þrotabúið eru allt saman ágiskanir og við þingmenn höfum í raun engar forsendur fyrir því að samþykkja þessa ríkisábyrgð, því að hér er ekki neitt fast í hendi. Óvissuþættirnir eru svo ótrúlega margir að það er ekki hægt að festa hendur á neitt.

Ég verð greinilega að koma að þessum spurningum í seinni ræðum mínum í þessu máli þar sem ég get farið lið fyrir lið yfir þessar spurningar og svör Seðlabankans við þeim sem eru nokkuð ítarleg. Það er best að taka ákvörðun um það að taka þetta fyrir í næstu ræðu, því að tíminn gengur mjög hratt. Ég ætla því að vinda mér í að tala hér um annað áður en tíminn rennur út. Það var eitt í sambandi við auðlindirnar okkar. Það er nefnilega þannig að í nýja frumvarpinu, þskj. 76, sem er málið sem við erum ræða núna, segir, og er eitt af því sem kemur inn í frumvarpið og inn í samningana, viðaukasamningana, takið eftir, með leyfi forseta:

„... strax og raunhæft reynist eftir dagsetningu þessa samnings leggja fyrir Alþingi frumvarp þar sem kveðið er á um að íslenska ríkið fái heimild án skilyrða og fyrirvara“ — hlustið: fái heimild án skilyrða og fyrirvara — „til að taka á sig ábyrgð samkvæmt breyttum lánssamningi og um hverja þá heimild aðra sem þarf til að tryggja að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins samkvæmt fjármálaskjölunum séu lögmætar, gildar, bindandi og fullnustuhæfar.“

Þetta er grein 2.1.2, ég bið þingmenn um að lesa þá grein, því að eins og ég kom inn á áðan er nánast búið að fella friðhelgisréttindin og náttúruauðlindaákvæðið úr lögsögu Íslendinga og við höfum ekki yfir þeim að ráða, því að þegar bindandi og fullnustuhæfar eigur, ég hef spurt að þessu og ekki fengið svar: Erum við þá t.d. að tala um ábendingarrétt á auðlindirnar? Erum við að tala um ábendingarrétt eigna íslenska ríkisins? Ábendingarréttur snýr að því í gjaldþroti. Ábendingarréttur snýr að því að maður má benda á þær eigur sem maður vill helst eiga verði einstaklingur gjaldþrota. Ábendingarrétturinn verður virkur í samningum á milli ríkja sé friðhelgisréttindum rutt í burtu. Fólk skal átta sig á því.

Þarna þarf ég að fá svör. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra að þessu í 1. umr. Hann gat ekki svarað mér. Hann situr í þingsal nú, hann getur vonandi svarað mér núna: Hvaða eigur íslenska ríkisins eru fullnustuhæfar í þessum samningum?

Það væri mjög æskilegt að fá hér svar við þessu, því að ekki hafa komið fram rök frá stjórnarþingmönnum í nefndaráliti því sem liggur fyrir hér með frumvarpinu.

Það er verið að afsala okkur dómsvaldinu. Það er verið að afsala okkur löggjafarvaldinu. Það er verið að afsala okkur friðhelgisréttindunum og náttúruauðlindunum.

Frú forseti. Ég veit ekki á hvaða leið ríkisstjórnin er. Ég get ekki fundið út úr því og hef hugsað það mikið. Það eru rúm 90% þjóðarinnar sem standa ekki með ríkisstjórninni í þessu máli. Nú er hafin undirskriftasöfnun fyrir því að reyna að forða því tjóni sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla að standa fyrir á Alþingi með því að neyða þessu frumvarpi í gegnum þingið og gera þetta að lögum, neyða það í gegnum þingið með hótunum. Nú er hafin undirskriftarsöfnun, eins konar forvörn í þá átt að skora á forsetann að undirskrifa ekki lögin. Þetta er merki um það að framkvæmdarvaldið valtar hér yfir alla. Þjóðin treystir ekki ríkisstjórninni, það sést best á því að forsetinn er kallaður til. Það er verið að biðja forsetann um að skrifa ekki undir lögin, verði þau samþykkt á þinginu. Þetta eru alvarlegar fréttir. En forseti Íslands, sama hver situr í því sæti, er ákveðinn öryggisventill við því að hafna lögum.

Frú forseti. Framsóknarflokkurinn heldur áfram að standa með þjóð sinni og komandi kynslóðum. Við höfum bent á alla þá galla sem hafa komið fram í þessu Icesave-máli. Það átti ekki að (Forseti hringir.) sýna okkur samninginn í upphafi. Það er þrautseigjan sem hefur komið okkur þangað sem við erum. Ég óska eftir (Forseti hringir.) því að ríkisstjórnin falli frá þessu máli.