Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 16:13:19 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það vegna þess að þegar Ragnar H. Hall setti þessa fyrirvara við skiptingu á búinu, ritaði aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra, Indriði H. Þorláksson, grein um það og hélt því fram að þetta væri nánast ekki rétt sem hann var að segja. Þá langar mig að spyrja hver er skoðun þingmannsins á því fyrst þetta var sérstaklega skrifað inn í samninginn í byrjun, hver var hugsunin á bak við það að hafa þetta með þessum hætti að það væri verið að lagskipta kröfunum?

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmann: Ef Alþingi Íslendinga samþykkir frumvarpið eins og það liggur fyrir núna, það kom reyndar fram eins og hv. þingmaður benti á í ræðu sinni að það sem verið er að segja með þessu er það að bresk og hollensk yfirvöld treysta ekki íslenskum dómstólum, hver er skoðun hv. þingmanns á því ef Alþingi samþykkir frumvarpið, er það þá að taka undir og í raun og veru að lýsa vantrausti á íslenska dómstóla með því að samþykkja þetta með þessum hætti?