Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 16:20:47 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Árið 2016, 5. júní, eigum við að borga fyrstu greiðsluna og þar sem hv. þingmaður fór afskaplega ítarlega í gegnum lagalega fyrirvara og er vel að sér í þeim, þá langar mig til að spyrja hana að eftirfarandi: Nú getur vel verið að forsendur Seðlabankans gangi eftir og allt sé bara ljómandi létt að borga og allt svoleiðis, en það getur líka gerst að eins og var bent á að hin mikla skuldsetning valdi því að hér verði lítil landsframleiðsla, lítill hagvöxtur, eins og gerðist í Japan, hvað gerist ef Íslendingar geta ekki borgað vextina? Hvað gerist lagalega séð þegar Íslendingar geta ekki klórað saman gjaldeyri til að greiða fyrstu eða aðra greiðslu af láninu og lenda í þeirri stöðu sem ýmsir Íslendingar hafa því miður kynnst, að vera ekki borgunarmenn? Hvernig er lagaleg staða okkar gagnvart útlöndum í þeirri stöðu?