Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 17:03:46 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hv. þm. Bjarni Benediktsson er búinn að draga í land varðandi dómstólaleiðina sem hann mælti gegn í desember og þá liggur það fyrir. Ég er auðvitað algjörlega ósammála hv. þingmanni að líta þannig á málin að samningarnir eða það sem nú liggur fyrir og við erum að fjalla um jafngildi því að við höfum tapað máli fyrir dómstólum. (Gripið fram í.) Ég skil ekki hvernig er hægt að halda slíku fram.

Ef einhver hefur haldið því fram að við gætum bara setið á Alþingi og ákveðið ein hvernig við vildum hafa þessa samninga og þyrftum ekki að ræða við einn eða neinn um það, er það auðvitað misskilningur. Hvað ef Hollendingar hefðu samþykkt í sínu þingi hvernig þeir vildu hafa þetta, Bretar í sínu þingi og við í okkar þingi, hvernig halda menn að við hefðum nokkurn tíma komist að niðurstöðu í því efni? (Gripið fram í.) Ég er ekki viss um að dómstólarnir hefðu verið okkur hagstæðir í því máli.

Þegar verið er að ræða um hvað er inni í þessum samningum, þá hef ég farið yfir það og hef ekki tíma til að gera það nú (Forseti hringir.) en minni þó á að það eru langtum hagstæðari kjör sem við náum nú fram en voru uppi (Forseti hringir.) á borðum þegar íhaldið fór með þessi mál á síðasta ári.