Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 17:06:23 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum bara hreinlega ósammála um það. Miðað við þá þröngu stöðu sem Ísland var í, þar sem enginn í alþjóðasamfélaginu studdi okkur, enginn í alþjóðasamfélaginu tók undir kröfur okkar um að okkur bæri ekki að greiða þessa skuld, við stóðum ein, og miðað við allar aðstæður er hægt að segja, ef það er hægt að nota þau orð, að við megum sæmilega við una miðað við það hvernig staðan er núna.

Við skulum ekki gleyma því að við eigum verulega möguleika á því að fá mikið upp í þessar kröfur úr eignum Landsbankans þegar verið er að tala um að við fáum hugsanlega 88% upp í þessar kröfur. Vissulega er það mikið sem stendur þó eftir en engu að síður miðað við allar aðstæður, hv. þingmaður, tel ég að við getum bærilega við unað. Það sem við þurfum virkilega á að halda núna er að koma okkur út úr þessu máli, koma okkur til verka í öðrum málum. Eins og ég fór yfir í máli mínu áðan stöndum við því miður frammi fyrir því að við verðum að leysa þetta (Forseti hringir.) Icesave-mál m.a. til að geta farið í nauðsynlega atvinnuuppbyggingu (Forseti hringir.) sem atvinnulífið kallar á.