Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 17:08:58 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að við teljum að svo sé ekki vegna þess að tryggingarsjóðirnir eru ekki markaðsaðilar og þeir eru ekki í neinni samkeppni sín á milli. Ég held að þarna reyni ekkert á jafnræðisregluna og raunar fráleitt að halda því fram að jafnræðisreglan hafi verið brotin eins og hv. þingmaður gerir. Það er ekkert raunverulega sem skyldar Breta og Hollendinga til að lána Íslendingum vegna þessara útgjalda, hvað þá að það sé skylda þeirra að lána okkur á sambærilegum kjörum. Þetta á því ekkert skylt við það sem hv. þingmaður er að halda fram í þessu máli og því síður er hægt að vísa til einhverra fyrirframgefinna reglna sem lánin ættu að fást á. Málin standa bara ekki þannig, það er ekki hægt að vísa til jafnræðisreglunnar með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir.