Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 17:16:02 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:16]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hve mikið mark ég á að taka á þingmanni sem heldur því fram að ég ætli ekki að taka afstöðu með stjórnarskránni, og þingmönnum sem halda því fram að ég sé að gæta hagsmuna Breta og Hollendinga. Ég bara spyr: Er þetta svara vert?

Ég held því fram og skal segja það aftur og aftur að það mun hafa áhrif á uppbyggingu atvinnulífsins hér ef ekki er gengið frá Icesave-samningnum. (Gripið fram í.) Það var það sem Samtök atvinnulífsins og ASÍ höfðu áhyggjur af, að þetta væri mál sem þyrfti að klára til (Gripið fram í.) að losa um ýmislegt eins og lán og annað sem (Gripið fram í.) við þyrftum á að halda til að komist yrði áfram. Ef hann stoppar hér, eins og mér heyrist að hv. þingmenn vilji, er ég hrædd um að ýmsar fjárfestingar sem bíða eftir að fá erlent fjármagn inn í landið, (Gripið fram í.) muni stoppa ef menn ætla að bíða fram á næsta ár með að afgreiða þennan samning. (Gripið fram í.) Þetta mun hafa áhrif á lánshæfismatið, ekki bara ríkisins, heldur líka hjá ýmsum fyrirtækjum.