Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 17:59:55 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég held að hún sé einmitt mjög mikilvæg og er í sjálfu sér grundvallaratriði í þessu vegna þess að mat mitt og margra annarra er að þessi samningur feli í sér lakari niðurstöðu en við hefðum jafnvel fengið ef við hefðum farið með málið fyrir dómstóla og þjóðin verið dæmd ábyrg fyrir þessu að fullu. Við hefðum þá alla vega látið reyna á þennan lagalega rétt okkar. Það er alveg ljóst að viðsemjendur okkar vilja ekki fara þá leið, þeir þora ekki að fara þá leið. Þeir vilja forðast það eins og hægt er og gera alla þá fyrirvara við þá leið sem mögulegt er. En við hefðum þá látið reyna á það og ef við hefðum fengið þann dóm þá er náttúrlega munurinn sá að við hefðum verið dæmd til að borga þetta í íslenskum krónum. Við værum þá ekki bundin af þeirri miklu gengisáhættu sem fylgir í þessu núna og er algerlega ófyrirséð hvert leiðir okkur. Ef þetta væri í íslenskum krónum værum við að miða þetta við okkar eigin gjaldmiðil og það væri í sjálfu sér allt annað umhverfi sem við værum þá að fjalla um. Þá væri líka hægt að segja að þessar greiðslur færu kannski í að auka eitthvað verðbólgu tímabundið, sem út af fyrir sig getur verið alveg ásættanlegt við svona aðstæður. En sá yrði stóri munurinn.